Skoðun

Bættar tengingar – meiri hagsæld

Árið 2018 gæti orðið sögulegt fyrir Keflavíkurflugvöll og Ísland sem miðstöð flugs á Norður-Atlantshafi ef farþegaspá Isavia, sem kynnt var í lok nóvember, gengur eftir. Þá munu 10,4 milljónir farþega fara um Keflavíkurflugvöll á þessu ári sem er 18% fleiri en á árinu sem var að líða. Athygli vekur að fjölgunin er mest á meðal skiptifarþega sem millilenda eingöngu á flugvellinum á leið sinni á milli Evrópu og Norður-Ameríku, en talið er að þeim muni fjölga um 33% í ár. Þessi vöxtur í tengiflugi er afar einstakur líkt og kemur fram í skýrslu Alþjóðasamtaka flugvalla, því á aðeins 10 árum hefur tengjanleiki flugvallarins aukist um 1.000% og búist er við frekari vexti á næstu árum. Það er því ekki skrítið að aðrar þjóðir líti á Keflavíkurflugvöll sem gott dæmi um alþjóðlegan tengiflugvöll á hraðri uppleið.

Fjöldi rannsókna sýnir að öflugar samgöngutengingar milli landa skila sér í auknum lífsgæðum fyrir þjóðir og er það einmitt það sem við erum að sjá í dag hér á landi. Sá mikli fjöldi skiptifarþega sem fer í gegn um Keflavíkurflugvöll er forsenda þess að stærstu flugfélögin geti haldið uppi svo öflugu leiðakerfi sem raun ber vitni. Staðsetning lands okkar er einstök og þótt hún geti oft á tíðum verið ákveðin áskorun, þá koma þessir þættir sér ansi vel í þessu samhengi.

Tengiflug hefur á stuttum tíma breyst í afar mikilvæga stoð undir uppbyggingu flugs á Íslandi og þurfum við sérstaklega að líta til framtíðar í þeim efnum. Stækkun Keflavíkurflugvallar er þar efst á baugi. Það er nauðsynlegt svo viðhalda megi þeim góða árangri sem náðst hefur í þessari hliðargrein og ferðaþjónustu í heild. Áframhaldandi uppbyggingarskeið er í kortunum á flugvellinum. Búast má við að Isavia muni framkvæma fyrir yfir 15 milljarða króna á ári næstu árin.

Huga þarf að því hvernig íslenskt hagkerfi getur nýtt þessa nýju stoð enn betur til bættra lífskjara. Það er afar brýnt að góðar flugtengingar séu til staðar svo að íslenskt atvinnulíf geti dafnað og tekið þátt í samkeppni á alþjóðlegum mörkuðum. Sé haldið rétt á spöðunum má búa til ótal tækifæri til atvinnu- og tekjusköpunar, þá sérstaklega ef litið er til þeirrar tæknibyltingar sem nú stendur sem hæst sem og laðar til okkar alþjóðlega starfsemi sem nýtir öflugar flugtengingar til að koma vöru og/eða þjónustu á markað. Ekki má heldur gleyma því að við Íslendingar njótum einnig frekara frelsis með fleiri áfangastöðum, en það er líklegast ekki sjálfsagt að 340 þúsund manna þjóð geti valið að fljúga til um 100 áfangastaða með 29 flugfélögum frá einum og sama flugvellinum.

Ísland er eyja og því verður ekki breytt en með bættum tengingum vinnum við gegn landfræðilegri einangrun landsins og stuðlum að aukinni hagsæld.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×