Erlent

Prestur kennir kollegum að vopnast

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, faðmar íbúa eftir skotárásina á kirkju í Sutherland Springs.
Greg Abbott, ríkisstjóri í Texas, faðmar íbúa eftir skotárásina á kirkju í Sutherland Springs. vísir/afp
„Sjáið hvað ég geri. Ég skýt undir kirkjubekkina.“ Þetta hrópar baptistapresturinn Barry Young, sem ferðast vítt og breitt um Bandaríkin og heldur námskeið í öryggismálum um leið og hann boðar guðs orð.

Söfnuðurinn í lítilli timburkirkju úti á landsbyggðinni í Suður-Dakóta hafði boðið Young að halda tveggja daga námskeið í því hvernig best er að verja kirkjur gegn árásum. Um 80 prestar komu til að hlýða á Young sem lét eins og hann héldi á byssu, að því er kom fram í heimildarþætti danska ríkisútvarpsins.

Vopnavæðing í bandarískum guðshúsum er ekki ný af nálinni. Eftir fjölda árása á bænahús gyðinga, moskur og hof veitti Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, skattfé til trúfélaga til að þau gætu varið sig. Síðastliðið haust tilkynnti stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta að veita ætti enn meira fé í þessu skyni.

Haft er eftir Barry Young að í fyrstu hafi fjöldi presta verið mótfallinn því að vopnast. Nú horfist þeir hins vegar í augu við raunveruleikann.

Í kjölfar skotárásarinnar í kirkju í Sutherland Springs í Texas í fyrra, þar sem á þriðja tug manns lét lífið, og í kjölfar annarra skotárása hafa starfsmenn baptistaprestsins verið önnum kafnir við námskeiðahald. Young kennir á milli 70 og 500 manns um hverja helgi og hann er bókaður langt fram á þetta ár. Önnur öryggisfyrirtæki hafa sömu sögu að segja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×