Erlent

Ástralir í sárum eftir sjálfsvíg stúlku

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Amy „Dolly“ Everett öðlaðist frægð sem andlit ástralsks hattafyrirtækis. Hér sést hún í einni af auglýsingum þess þegar hún var átta ára gömul.
Amy „Dolly“ Everett öðlaðist frægð sem andlit ástralsks hattafyrirtækis. Hér sést hún í einni af auglýsingum þess þegar hún var átta ára gömul. AKUBRAHATS
Fjórtán ára áströlsk stúlka, sem var andlit hattafyrirtækisins Akubra þar í landi, svipti sig lífi eftir að hafa orðið fyrir grófu einelti á netinu.

Faðir stúlkunnar kallar eftir meiri umræðu um netníð og segir hann að þannig megi halda nafni hennar, Amy „Dolly“ Everett, á lofti. Hattafyrirtækið hefur sent fjölskyldunni samúðarkveðju og vonast það til að einelti verði sagt stríð á hendur. Talið er að fimmtungur allra ástralskra ungmenna hafi orðið fyrir einelti á síðasta ári.

Í færslu á Facebook segir faðirinn, Tick Everett, að dóttir hans hafi viljað „losna frá illsku heimsins“ en að hún hafi ekki gert sér grein fyrir „sársaukanum og tómleikanum sem hún skildi eftir.“

Hann lýsir því ekki í hverju eineltið fólst en vonast þó til að andlát dóttur sinnar verði til þess að vekja máls á vandanum. Þannig megi jafnvel bjarga mannslífum frá sömu örlögum.

Í færslunni býður hann jafnframt hrekkjusvínunum, sem lagt höfðu Amy í einelti, í útförina. Hann vill þannig að þau sjái hina „fullkomnu örvinglun“ sem gjörðir þeirra leiddu til.

Gæti hafa verið hver sem er

Amy Everett hafði verið andlit hins víðfræga ástaralska hattafyrirtækis Akubra þegar hún var átta gömul og starfaði enn á þeirra vegum. Að sögn fyrirtækisins hafði „þyrmt yfir hana“ skömmu áður en hún lést. „Það er undir okkur komið að stöðva allt einelti sem við verðum vitni að. Dolly gæti verið dóttir okkar allra,“ segir í Facebook-færslu fyrirtæksins.

Ef marka má opinbera tölfræði í Ástralíu, sem rakin er á vef breska ríkisútvarpsins, virðist einelti hafa færst í auknum mæli úr raunheimum yfir á internetið. Þá hefur sjálfsvígum fólks á aldrinum 15 til 24 ára fjölgað á síðustu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×