Fótbolti

Tólfan fær tíu miða frá KSÍ á hvern leik Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tólfan hefur verið áberandi á leikjum Íslands og settu sterkan svip á EM í Frakklandi.
Tólfan hefur verið áberandi á leikjum Íslands og settu sterkan svip á EM í Frakklandi. visir/vilhelm
Tólfan, stuðningsmannaklúbbur íslenska landsliðsins í knattspyrnu, fær ferð til Rússlands og tíu miða á hvern leik Íslands á HM í Rússlandi í sumar. Þetta staðfesti Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í samtali við Vísi í dag.

„Það kom beiðni frá Tólfunni og féllst stjórn KSÍ á hana. Grundvallarhugmyndin er því samþykkt og var framkvæmdastjóra falið að útfæra þetta nánar,“ sagði Klara.

Hún hefur þegar hitt fulltrúa Tólfunnar vegna þessa og mun funda með þeim áfram á næstu dögum til að fara yfir aðkomu Tólfunnar að HM í Rússlandi. Klara segir þó ljóst að ekki sé eingöngu um skemmtiferð að ræða fyrir stuðningsmennina sem fara út.

„Það er ljóst að þeir hafa skyldum að gegna úti en hverjar þær verða nákvæmlega og hvernig þær verða útfærðar á eftir að koma í ljós. Við eigum eftir að fá allar upplýsingar frá mótshöldurum um stuðningsmannasvæði [Fan Zone] og reiknum við með að fá að vita meira um það í febrúar,“ sagði hún.

Klara segir að KSÍ muni ekki skipta sér af því hverjir muni fara til Rússlands fyrir hönd Tólfunnar.

„Það er eitt af því sem við ætlum að ræða við þá en það liggur fyrir að slík mál þarf Tólfan að klára sínu megin. Við ætlum ekki að stjórna því fyrir þau - þau þekkja það best sjálf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×