Erlent

„Varúlfurinn“ játar á sig tugi morða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mikhail Popkov gæti verið einn illræmdasti fjöldamorðingi sögurnar.
Mikhail Popkov gæti verið einn illræmdasti fjöldamorðingi sögurnar.
Rússsneskur fyrrverandi lögreglumaður, sem sakfelldur var fyrir að hafa myrt tuttugu og tvær konur á margra ára tímabili, hefur nú játað á sig fimmtíu og níu morð til viðbótar.

Mikhail Popkov, sem er fimmtíu og þriggja ára gamall, er nú fyrir rétti vegna hinna nýju yfirlýsinga hans. Ef hann verður fundinn sekur um öll morðin sem hann hefur játað á sig, áttatíu og eitt að tölu, gerir það hann að einum illræmdasta fjöldamorðingja sögunnar. Hann var handtekinn árið 2012 þegar lífsýni tengdu hann við vettvang eins morðsins.

Popkov framdi morðin í grennd við heimaborg sína, Angarsk í Síberíu, á árunum 1992 til 2010. Fram til ársins 1998 starfaði Popkov sem lögreglumaður en ekkert lát varð á morðunum þó hann hafi lagt lögreglukylfuna á hilluna.

Fórnarlömb hans voru allt konur á aldrinum sextán til fjörutíu ára, fyrir utan einn karlmann sem var samstarfsmaður hans í lögreglunni. Popkov er sagður hafa myrt flest fórnarlamba sinna í aftursæti bifreiða, stundum lögreglubílsins sem hann ók heim til sín eftir langar kvöldvaktir, eftir að hafa boðið þeim far. Popkov gengur alla jafna undir viðurnefninu „Varúlfurinn“ eða „Brjálæðingurinn frá Angarsk“ í heimalandi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×