Enski boltinn

Thierry Henry: Liverpool gæti verið liðið sem stoppar Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane fékk rautt spjald á 37. mínútu í fyrri leik Liverpool og Manchester City.
Sadio Mane fékk rautt spjald á 37. mínútu í fyrri leik Liverpool og Manchester City. Vísir/Getty
Manchester City er taplaust og með fimmtán stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en fyrsta tapið gætið komið um helgina ef marka má Thierry Henry, fyrrum leikmanns Arsenal og franska landsliðsins, sem er sérfræðingur hjá Sky Sports.

Henry veltir fyrir sér leik Liverpool og Manchester City um helgina sem fer fram á Anfield í Liverpool. Manchester City vann fyrri leik liðanna 5-0 og hefur nú spilað fyrstu 22 deildarleiki sína á tímabilinu án þess að tapa.

Henry bendir á það að staðan var bara 1-0 þegar Sadio Mane var rekinn af velli og að Liverpool var búið að skapa vandræði fyrir leikmenn City á upphafskafla leiksins.

„Við sáum Liverpool ógna þeim í upphafi leiks og City kemst í 1-0 gegn gangi leiksins. Ég hefði viljað sjá þennan leik spilast án þess að Mane fengi rauða spjaldið. Liverpool var inn í leiknum og það hefði verið áhugavert,“ sagði Thierry Henry við Sky Sports.

Henry bendir á að Manchester City hafi átt í mestum vandræðum með liðin í neðri hlutanum á þessari leiktíð en lið eins Chelsea var aftur á móti ekki mikil fyrirstaða fyrir lærisveina Pep Guardiola. Þess vegna hafi mótstaða Liverpool í upphafi síðasta leiks gefið góð fyrirheit fyrir leik liðanna um helgina.

Henry hefur heldur ekki áhyggjur af því að brotthvarf Philippe Coutinho komi í veg fyrir að Liverpool geti unnið Manchester City um helgina.

„Þeir hafa ennþa´menn eins og Firmino, Salah og Mane. Það er ekki slæm þriggja manna lína. Það væri samt betra að vera með Coutinho í tíunni. [Alex] Oxlade-Chamberlain er þarna og [Adam] Lallana er kominn aftur en auðvitað eiga þeir eftir að sakna Coutinho. Það er fáránlegt hvað hann hefur skorað mörg mörk fyrir utan teig. Liðið verður að halda sínu striki og Liverpool verður alltaf Liverpool,“ sagði Henry.

Henry talar vel um Mo Salah og nýja manninn Virgil van Dijk og það fer ekki á milli mála að hann hefur mikla trú á Liverpool, líka á móti toppliði Manchester City á sunnudaginn

„Já ég tel að það bendi margt til þess að Liverpool gæti verið liðið sem stoppar City,“ sagði Thierry Henry.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×