Enski boltinn

Bestir í desember í enska: Kane jafnaði met Gerrard og áskrift Pep telur nú fjóra mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane með verðlaunin sín.
Harry Kane með verðlaunin sín. Vísir/Getty

Harry Kane, framherji Tottenham, og Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, voru valdir bestir í desembermánuði í ensku úrvalsdeildinni, Kane besti leikmaðurinn og Guardiola besti stjórinn.

Það er sérstök valnefnd á vegum ensku úrvalsdeildarinnar sem kýs um besta stjórann og besta leikmanninn í hverjum mánuði en þar koma líka inn atkvæða frá fyrirliðum liðanna í ensku úrvalsdeildinni og frá stuðningsmönnum félaganna.  


 
Pep Guardiola endurskrifaði metabókina með því að vera kosinn besti knattspyrnustjóri ensku úrvalsdeildarinnar fjórða mánuðinn í röð.

Pep hefur verið kosinn besti stjórinn í september, október, nóvember og desember. Þessu hefur enginn náð áður í sögu kjörsins.

Manchester City vann sex leiki og gerði eitt jafntefli í taplausum mánuði og náði fjórtán stiga forkosti á toppi deildarinnar.

Aðrir sem komu til greina voru: Sam Allardyce hjá Everton, Antonio Conte hjá Chelsea, Roy Hodgson hjá Crystal Palace,  Jurgen Klopp hjá Liverpool og Mauricio Pochettino hjá Tottenham. Harry Kane jafnaði met Liverpool mannsins Steven Gerrard með því að fá þessi verðlaun í sjötta sinn á ferlinum.

Þessi 24 ára framherji Tottenham skoraði átta mörk í sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í desember þar á meðal þrennu í tveimur leikjum í röð á móti Burnley og Southampton.

Með þessum átta mörkum í jólamánuðinum varð hann fyrsti leikmaðurinn til að skora 39 mörk í ensku úrvalsdeildinni á einu almanaksári.

Aðrir sem komu til greina voru: Marcos Alonso hjá Chelsea, Marko Arnautovic hjá West Ham, Roberto Firmino og Mohamed Salah hjá Liverpool, Jesse Lingard hjá Manchester United, Riyad Mahrez hjá Leicester City og Nicolas Otamendi hjá Manchester City.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.