Innlent

Fimm reknir frá KR

Jón Hákon Halldórsson skrifar
KR hefur vísað fimm mönnum á dyr vegna ósæmilegrar framkomu á síðustu árum. Í tveimur tilfellum voru málin kærð. Forystumenn þrigga annarra íþróttafélaga eru slegnir yfir alvarleika frásagnanna.
KR hefur vísað fimm mönnum á dyr vegna ósæmilegrar framkomu á síðustu árum. Í tveimur tilfellum voru málin kærð. Forystumenn þrigga annarra íþróttafélaga eru slegnir yfir alvarleika frásagnanna. vísir/anton brink

Á síðustu árum hafa komið upp fimm mál hjá KR, þar sem mönnum hefur verið vísað frá félaginu vegna óeðlilegra samskipta milli kynja. Þetta segir Stefán Arnarson, íþróttafulltrúi KR.

Stefán segir að í tveimur tilfellum hafi mál verið kærð til lögreglu og í öllum tilfellum hafi þeir sem áttu hlut að máli verið látnir fara frá félaginu. Stefán segir ekki hafa verið um nauðganir að ræða, „sem betur fer ekki“.

Forystumenn þriggja annarra íþróttafélaga, sem Fréttablaðið ræddi við, eru slegnir yfir alvarleika þeirra frásagna sem konur í íþróttum birtu af kynferðisbrotum, kynferðislegri áreitni og kynbundinni mismunun í fyrradag.

„Mér finnst þessi mál alveg skelfileg og þessi alvarlegustu mál ættu náttúrlega að vera lögreglumál. En auðvitað verður íþróttahreyfingin, þess vegna á næstu dögum, að fá til liðs við sig sérfrótt fólk um þessi mál og búa til leiðbeiningar fyrir íþróttafélögin,“ segir Viðar Halldórsson, formaður FH.

Horfir hann þar fyrst og fremst til Íþróttasambands Íslands.

„En auðvitað verður síðan að takast á við hvert mál um leið og það kemur upp.“

Viðar segist kannast við eineltis­mál en ásakanir um kynferðislegt ofbeldi hafi hann aldrei heyrt.

„Það er ömurlegt að lesa þetta.“

Viðar Halldórsson, Formaður FH

Sveinn Gíslason, formaður Breiðabliks, segir að félagið hafi þurft að takast á við eineltismál og atvik þar sem stúlkum sem æfa hjá félaginu hafi verið sýnd ósæmileg framkoma. Í þeim tilfellum hafi verið leitað til Ungmennafélags Íslands og Ungmennafélags Kjalarnesþings sem hafi á að skipa fagaðilum á því sviði.

„Þetta kemur þess vegna ekki á óvart en maður er sleginn yfir alvarleika þeirra dæma sem nefnd voru. Við erum mjög stórt íþróttafélag með mjög öfluga starfsemi hjá stelpum og konum og eftir að þessar fréttir komu í gær (í fyrradag) höfum við rætt saman og við ætlum að ræða þetta sérstaklega í aðalstjórn félagsins í næstu viku,“ segir Sveinn.

Reynt verði að skoða ferla hvernig hægt er að bregðast við svona málum og greina hversu alvarlegur vandinn er hjá félaginu.

„Við ætlum ekki að loka augunum fyrir því að hann sé til staðar en vonum að það sé ekkert saknæmt sem hafi átt sér stað,“ segir hann.

Árni Óðinsson, formaður Þórs á Akureyri, segist hafa getað ímyndað sér að eitthvað þessu tengt gæti hafa átt sér stað innan íþróttahreyfingarinnar, en ekki svona mikið og ekki svona ljótt. Hann segir félagið nú þegar hafa rætt málið og það verði rætt áfram. Hann kannast ekki við að neitt þessu líkt hafi komið upp hjá Þór. Hins vegar geti félagið ekki afgreitt málið þannig að það eigi ekki við um sig.

„Þetta á við um okkur öll.“ 

Sveinn og Árni taka undir með formanni FH að ÍSÍ geti leitt vinnuna við að móta viðbrögð við svona atburðum. 

Fjórar ásakanir um ofbeldi á sex árum
„Ég starfaði sem framkvæmdastjóri í tveimur íþróttafélögum í samtals sex ár. Á þeim tíma fékk ég inn á mitt borð fjögur tilfelli þar sem þjálfari/leikmaður/starfsmaður félagsins (sem í öllum tilfellum var karlmaður) var ásakaður um brot sem flokkast sem kynferðisbrot gegn einstaklingi eða a.m.k. ósæmileg hegðun,“ segir Jóhann Már Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Vals og Aftureldingar, í stöðufærslu á Facebook.

Hann segir brotin hafa verið misalvarleg. Í þremur af þessum málum hafi viðkomandi aðila verið vikið frá félaginu og í einu tilfellinu hafi viðkomandi hætt sjálfur.


Tengdar fréttir

Frásögn Hólmfríðar orðin að fréttamáli í Noregi

Íslenska landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir staðfesti í gær að hún ætti eina af frásögnuum 62 sem birtust þegar íþróttakonur á Íslandi sendu frá sér yfirlýsingu í tengslum við MeToo umræðuna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.