Skoðun
Ingvar Jónsson

Búsetu- og atvinnumál fatlaðra

Ingvar Jónsson skrifar

Á undanförnum árum hefur húsnæðisskortur í Reykjavík verið alvarlegt vandamál sem brýnt er að leysa úr með auknu lóðaframboði og uppbyggingu nýs íbúðahverfis. Húsnæðisskorturinn hefur ekki hvað síst komið illa niður á fötluðum þar sem húsnæði er dýrt á almennum markaði. Lögum samkvæmt ber sveitarfélögum að útvega fötluðum húsnæði við hæfi en því miður eru biðlistar langir með tilheyrandi frelsisskerðingu fatlaðra sem margir hverjir eru fastir í foreldrahúsum þrátt fyrir að vera komnir á fullorðinsaldur.

Til þess að vaxa og þroskast er mikilvægt að standa á eigin fótum og að taka ábyrgð á eigin lífi. Við eigum öll rétt á því að taka okkar eigin ákvarðanir enda er það hluti af þroskaferli að geta sjálfur borið ábyrgð, þar er enginn munur á fötluðum og ófötluðum.

Fatlað fólk er og verður alltaf hluti af samfélaginu og yfirvöldum ber skylda til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að fatlað fólk fái notið þess réttar síns að vera þátttakendur í samfélaginu.

Sveitarfélögum ber skylda til þess að taka þessi mál föstum tökum, fara að lögum og standa við alþjóðlegar skuldbindingar. Blessunarlega hefur þjóðarhagur vænkast mikið á síðustu árum þannig að aukið svigrúm hefur myndast til þess að standa við skuldbindingar gagnvart fötluðum.

Til þess að samfélag geti talist í fremstu röð þarf að búa svo um hnútana að allir fái möguleika á því að taka þátt í samfélaginu og fái tækifæri til þess að vaxa og þroskast. Þarna bera sveitarfélögin ríka ábyrgð. Tryggjum fötluðum réttindi sín og færum samfélagið skör ofar um leið.

Á sama hátt er brýnt að huga sérstaklega að atvinnumálum fatlaðra. Vegna frekari framfara og tæknibyltingar munu miklar breytingar verða á vinnumarkaði. Slík tæknibylting mun þrengja að vinnumarkaði og útrýma störfum, ekki hvað síst þeim störfum sem fatlaðir hafa vel sinnt. Stjórnmálamönnum stendur næst að leysa úr því og finna úrræði við hæfi í atvinnumálum fatlaðra.

Nú er rétti tíminn til að bregðast við, taka þessi mál föstum tökum og leysa þau af skynsemi þannig að raunverulegur árangur náist. Þetta er mikil áskorun. Leggjum okkur fram og færum samfélagið að þessum háleitu markmiðum.

Höfundur er flugstjóri, fyrrverandi varaþingmaður og varaborgarfulltrúi FramsóknarflokksinsAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.