Handbolti

Dagur Sigurðsson: Aðeins meiri pungur í þessu

Einar Sigurvinsson skrifar
Dagur Sigurðsson lætur sína menn heyra það.
Dagur Sigurðsson lætur sína menn heyra það. Vísir/Eyþór
Þjálfari Japan, Dagur Sigurðsson var nokkuð jákvæður þrátt fyrir tap sinna manna, 39-34, gegn Íslandi í kvöld.

„Þetta er bara mjög jákvætt. Það var meiri harka í þessu heldur en í gær, eins og við vildum sjá. Allt eins og maður vill sjá í æfingarleik og ekkert skrítið að þessi lið séu aðeins nær hvort öðru. Bæði ung og óreynd.“

„Þessir leikur var líkari okkur en fyrri leikurinn, þetta var líkara seinni hálfleiknum í gær, aðeins meiri áræðni. Aðeins meiri pungur í þessu.

Japan tapar leiknum með með fimm mörkum þrátt fyrir að skora 34 mörk. Eiga 34 mörk ekki að vera nóg til þess að vinna handboltaleiki?

„Jú fyrir flest lið, en ekki fyrir okkur. Okkur skortir svolítið á markvörslu og varnarleik, þannig að við þurfum að laga okkur þar.“

Þrátt fyrir tvo tapleiki er Dagur þó á heildina litið ánægður með ferðalag sinna manna til Íslands.

„Við getum tekið þrjá ágætis hálfleika út úr þessu, þó að við höfum tapað báðum leikjunum. Þetta fer í reynslubankann,“ sagði Dagur Sigurðsson, þjálfari Japan að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×