Enski boltinn

Jói Berg: Vil skora fleiri mörk

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhann Berg er hér í baráttu við Luke Shaw á Old Trafford.
Jóhann Berg er hér í baráttu við Luke Shaw á Old Trafford. vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson vonast eftir því að mark hans á móti Liverpool á nýársdag verði það fyrsta af mörgum, en markið var aðeins hans annað á einu og hálfu ári í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég er búinn að tala um það að ég vilji skora mörk og það var mjög góð tilfinning að skora,“ sagði Jóhann Berg í viðtali við Burnley Express.

Mark hans kom eftir fyrirgjöf frá Charlie Taylor sem Sam Vokes framlengdi á kollinn á Jóhanni undir lok seinni hálfleiks á Turf Moor. Þó það hafi verið fyrsta mark Jóhanns á tímabilinu þá hefur hann verið duglegur að skapa fyrir félaga sína og er með fimm stoðsendingar í deildinni.

„Svo lengi sem ég er að búa til færi eða skora mörk þá er ég ánægður. Ég er með nokkrar stoðsendingar og vil halda því áfram, en vonandi munu nokkur mörk fylgja þessu eftir.“

„Ég vil skora fleiri mörk og búa til fleiri mörk. Ég reyni mitt besta í hverjum leik, þannig er andinn hjá okkur, við gefum 120 prósent í alla leiki.“

Burnley hefur komið á óvart á tímabilinu og situr í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar, fimm stigum á eftir Arsenal í 6. sæti.

„Við höfum spilað vel gegn stóru liðunum á tímabilinu og við viljum halda áfram. Það sýnir hversu langt við erum komnir að við hræðumst engan og förum bara út á völlinn til þess að spila fótbolta,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson.

Knattspyrnustjóri Jóhanns hrósaði frammistöðu hans í leiknum gegn Liverpool og sagði hann vera lifandi dæmi um þróun félagsins.

„Jóhann var mjög góður. Hann fann fyrir verkjum í kálfanum í hálfleik en ég bað hann um að halda áfram og vera stór leikmaður fyrir okkur og hann gerði það. Hann er að þroskast og verða mjög góður leikmaður, hann er að bæta sig á öllum sviðum,“ sagði Sean Dyche.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×