Enski boltinn

Barcelona vill ganga frá kaupunum á Coutinho innan sjö daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Philippe Coutinho.
Philippe Coutinho. Vísir/Getty
Viðræður standa nú yfir á milli Barcelona og Liverpool um kaup spænska félagsins á Brasilíumanninum Philippe Coutinho.

Guillem Balague, sérfræðingur Sky Sports í spænska boltanum, hefur heimildir fyrir því að Barcelona vilji ganga frá kaupunum á Coutinho innan sjö daga.

Liverpool hafnaði þremur tilboðum frá Barcelona í Coutinho síðasta haust en það hæsta var upp á 113 milljónir punda. Heimildi herma að Barcelona sé tilbúið að greiða 133 milljónir punda fyrir Coutinho en 35,5 milljónir yrðu þá árangurstengdar greiðslur.

Philippe Coutinho verður ekki með Liverpool á móti Everton í enska bikarnum í kvöld og missti líka af leiknum á móti Burnley á Nýársdag. Hann er sagður meiddur aftan í læri en var einnig meiddur í ágúst þegar Barcelona bauð margoft í hann.

Liverpool vildi alls ekki selja Philippe Coutinho í ágúst en menn hjá félaginu eru opnari fyrir möguleikanum að selja sína stærstu stjörnu núna ekki síst vegna uppkomu Mo Salah.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, vildi ekkert tala um mál Philippe Coutinho á blaðamannafundi í gær en það er margt sem bendir til þess að Coutinho verði kominn í Barcelona-treyju fyrir lok mánaðarins.

Barcelona er enn að reyna að fylla í skarð Neymar og þá má lesa í grein Balague að félagið hugsi Coutinho líka til að létta álaginu af Andrés Iniesta.

Philippe Coutinho hefur hinsvegar spilað með Liverpool í Meistaradeildinni og má því ekki spila með Barcelona í Evrópukeppninni. Hann gæti því leyst Iniesta af í deildarleikjum liðsins og er því ekki aðeins hugsaður í stöðu fremstu manna.

Philippe Coutinho er með sjö mörk og sjö stoðsendingar í fjórtán leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og alls 12 mörk og 9 stoðsendingar í öllum keppnum á tímabilinu.

Philippe Coutinho




Fleiri fréttir

Sjá meira


×