Handbolti

Arnar Freyr tók sjálfan sig í gegn og er á leið á EM með íslenska landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Freyr Arnarsson, línumaðurinn sterki frá Kristianstad, tók sjálfan sig í gegn eftir vináttulandsleiki gegn Svíum hér heima í byrjun október.

Arnar Freyr er einn efnilegasti leikmaður sem komið hefur fram í íslenskum handbolta síðustu ár. Arnar steig sín fyrstu skref á stórmóti á heimsmeistaramótinu í Frakklandi á síðasta ári.

Miklar vonir hafa verið bundnar við leikmanninn en í leikjunum gegn Svíum hér heima í haust var ljóst að Arnar Freyr var ekki á góðum stað.

Arnar var meðvitaður um það eftir leikina gegn Svíum að hann þyrfti að taka til hjá sjálfum sér.

„Eftir leikina þá var ég ekki sáttur. Ég var ekki að gera neitt en tók mig aðeins í gegn. Það hefur verið marmið mitt númer eitt, tvö og þrjú eftir Svíaleikina að komast í form fyrir landsliðið og við sjáum til hvernig það verður,“ sagði Arnar Freyr í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Guðjón gekk á Arnar og spurði hann meira út í þetta.

„Ég tók mig aðeins í gegn. Ég náði að núllstilla hausinn, breytti aðeins lyftingaprógramminu og náði líka að létta mig aðeins. Mér lýst vel á þetta,“ sagði Arnar Freyr en það má horfa á innslag Gaupa í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×