Enski boltinn

Liverpool samþykkir risatilboð í Coutinho | Ferðaðist ekki með liðinu til Dubai

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Coutinho er hann kom af velli í lokaleik sínum með Liverpool er virðist vera.
Coutinho er hann kom af velli í lokaleik sínum með Liverpool er virðist vera. Vísir/getty
Samkvæmt staðarblaðinu í Liverpool ásamt hinum ýmsu fjölmiðlum hefur Liverpool samþykkt tilboð Barcelona í brasilíska landsliðsmanninn Philippe Coutinho.

Liverpool Echo greinir frá því á heimasíðu sinni nú rétt í þessu að Börsungar greiði Liverpool 142 milljónir punda fyrir Coutinho.

Mikið hefur verið ritað og rætt um stöðu hans en Börsungar sóttust eftir kröftum hans síðasta sumar en Liverpool neitaði öllum tilboðum.

Coutinho neitaði að spila með liðinu á meðan því stóð en kom aftur inn í liðið og átti frábæra takta í haust.

Um leið og sögusagnirnar fóru af stað á ný á dögunum var greint frá því að hann ætlaðist til þess að yfirgefa félagið og að hann myndi ekki leika annan leik fyrir Liverpool.

Leikmenn Liverpool héldu í sólina til Dubai til æfigna fyrr í dag og var Coutinho ekki með í för en búast má við staðfestingu frá félögunum á félagsskiptunum á næstu tímum.

Verður hann með þessu næst dýrasti leikmaðurinn í sögunni á eftir landa sínum og góðvini, Neymar en Börsungar greiða 105 milljónir undir eins og eru 38 milljónir árangurstengdar.

Coutinho sem kostaði Liverpool rúmlega 8 milljónir punda árið 2013 hefur leikið 203 leiki fyrir hönd Liverpool og skoraði í þeim 54 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×