Erlent

Lögreglustjóri ákærður fyrir að falast eftir kynlífi með táningsstúlku

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Saksóknari segir málið einkar ógeðfellt. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Saksóknari segir málið einkar ógeðfellt. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Michael Diebold, lögreglustjóri í Pennsylvaníu-ríki í Bandaríkjunum, var handtekinn á föstudag vegna gruns um að hafa mætt til fundar við 14 ára stúlku, sem reyndist þó vera annar lögregluþjónn, til að stunda með henni kynlíf.

Diebold var handtekinn á bensínstöð þar sem hann hafði mælt sér mót við stúlkuna. Stúlkan reyndist vera tálbeita en að skilaboðunum stóð lögregluþjónn sem starfar innan sérstakrar deildar hjá ríkissaksóknara Pennsylvaníu.

„Þetta mál er einkar ógeðfellt vegna þess að gerandinn er opinber embættismaður, sem sór þess eið að vernda og þjóna samfélaginu,“ segir í tilkynningu á heimasíðu ríkissaksóknara Pennsylvaníu, Josh Shapiro.

Þá var Diebold fullkomlega meðvitaður um aldur stúlkunnar sem hann taldi sig eiga í samskiptum við. Hann bað stúlkuna um myndir af henni á nærfötum einum fata og vildi ólmur hitta hana til að stunda með henni kynlíf.

Diebold er þekktur í heimabæ sínum en hann missti handlegg í flugeldaslysi í júní síðastliðnum. Þá voru fréttir fluttar af brúðkaupi Diebold og eiginkonu hans en þau gengu í hjónaband aðeins átján dögum eftir slysið. Þá fjölluðu fréttaveitur á borð við hina bandaríku Associated Press um bataferli Diebold.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×