Enski boltinn

Brottrekstrarhrina í ensku úrvalsdeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mark Hughes missti starfið sitt hjá Stoke eftir tap fyrir Coventry sem er þremur deildum neðar.
Mark Hughes missti starfið sitt hjá Stoke eftir tap fyrir Coventry sem er þremur deildum neðar. vísir/getty
Mark Hughes var rekinn sem knattspyrnustjóri Stoke City á laugardagskvöldið. Kornið sem fyllti mælinn hjá annars þolinmóðum stjórnarmönnum Stoke var neyðarlegt 2-1 tap fyrir D-deildarliði Coventry City í 3. umferð ensku bikarkeppninnar. Það var 200. og síðasti leikur Hughes við stjórnvölinn hjá Stoke. Hann er sjöundi stjórinn í ensku úrvalsdeildinni sem missir starfið sitt í vetur. Þeir ágætu menn sem starfa þar búa ekki við mikið starfsöryggi.

Eftir að hafa stýrt Stoke til 9. sætis ensku úrvalsdeildarinnar á fyrstu þremur tímabilum sínum við stjórnvölinn hjá liðinu féll það niður í 13. sæti í fyrra. Í vetur hefur svo sigið enn frekar á ógæfuhliðina. Stoke skorar lítið og ekkert lið í ensku úrvalsdeildinni hefur fengið á sig fleiri mörk, eða 47 talsins.

Hughes var gagnrýndur fyrir að tefla fram veiku liði í 5-0 tapi fyrir Englandsmeisturum Chelsea 30. desember. Walesverjinn réttlætti þá ákvörðun með því að Stoke ætlaði að einbeita sér að leiknum gegn Newcastle United á nýársdag. En hann tapaðist og það þrengdi enn frekar að Hughes sem skilur við Stoke í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Martin O’Neill, landsliðsþjálfari Írlands, er efstur á lista veðbanka yfir líklegustu eftirmenn Hughes hjá Stoke.

Eins og áður sagði hafa hæstráðendur liðanna í ensku úrvalsdeildinni ekki sýnt neina miskunn þegar kemur að því að skipta um stjóra í vetur. Sjö stjórar hafa fengið að taka pokann sinn þegar tímabilið er rétt rúmlega hálfnað.

Það voru bara fjórar umferðir búnar þegar Steve Parish, stjórnarformaður Crystal Palace, gafst upp á Hollendingnum Frank de Boer. Palace tapaði öllum fjórum deildarleikjunum undir hans stjórn og skoraði ekki mark. De Boer var aðeins 77 daga við stjórnvölinn hjá Palace.

Við starfi De Boers tók Roy Hodgson og sá gamli hefur heldur betur gert góða hluti hjá uppeldisfélaginu. Palace hefur safnað 22 stigum síðan Hodgson tók við og er komið upp í 14. sæti deildarinnar.

Þann 17. október var punkturinn settur aftan við veru Craigs Shakespeare hjá Leicester City. Maðurinn með skáldlega nafnið tók við Refunum af Claudio Ranieri í febrúar 2017 og þeir byrjuðu frábærlega undir hans stjórn. Leicester fékk hins vegar afar erfiða leiki í byrjun þessa tímabils og fá stig komu í hús. Shakespeare var því rekinn og Frakkinn Claude Puel tók við. Leicester hefur klifið töfluna undir hans stjórn og er búið að koma sér þægilega fyrir í 8. sætinu.

Aðeins sex dögum eftir að Shakespeare var rekinn fór Ronald Koeman sömu leið. Hollendingurinn stýrði Everton í síðasta sinn í 2-5 tapi fyrir Arsenal. Koeman keypti leikmenn fyrir rúmar 150 milljónir punda í sumar en mistókst að fylla skarðið sem Romelu Lukaku skildi eftir sig.

Eftir mikla rekistefnu var Sam Allardyce ráðinn til Everton, rúmum mánuði eftir að Koeman var rekinn. Stóri Sam hefur stoppað í götin í varnarleik Everton sem er komið upp í 9. sæti deildarinnar.

Slaven Bilic var rekinn frá West Ham 6. nóvember og daginn eftir var David Moyes ráðinn í hans stað. Bilic gerði fína hluti á sínu fyrsta tímabili hjá West Ham en var sennilega heppinn að fá að halda starfinu jafn lengi og raun bar vitni eftir slakt gengi í fyrra.

Moyes hefur rétt West Ham-skútuna af þótt sigrarnir séu aðeins þrír í 12 leikjum undir hans stjórn. Hamrarnir eru þó komnir upp úr fallsæti.

Tony Pulis fékk sparkið hjá West Brom 20. nóvember eftir 10 leiki í röð án sigurs. Alan Pardew tók við starfi Pulis. West Brom bíður enn eftir fyrsta deildarsigrinum undir hans stjórn. Þrátt fyrir að West Brom hafi ekki unnið leik síðan 19. ágúst, í 2. umferð, er liðið bara fjórum stigum frá öruggu sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Fjórum dögum fyrir jól var Paul Clement látinn fara frá Swansea City, eftir innan við ár í starfi. Undir stjórn Clements björguðu Svanirnir sér frá falli á síðasta tímabili. Í sumar leituðu Gylfi Þór Sigurðsson og Fernando Llorente á önnur mið og þar fór sóknarleikur Swansea á einu bretti. Liðið hefur aðeins skorað 13 mörk í 22 deildarleikjum í vetur.

Portúgalinn Carlos Carvalhal var rekinn frá B-deildarliði Sheffield Wednesday á aðfangadag en fjórum dögum seinna var hann ráðinn stjóri Swansea. Carvalhal er fjórði stjóri Swansea á síðustu tveimur árum.

Ekki er loku fyrir það skotið að áttundi stjórinn verði látinn taka pokann á næstunni. Mauricio Pellegrino, stjóri Southampton, situr í heitu sæti. Lítil ánægja er með störf hans en stuðningsmenn Southampton bauluðu á liðið í 0-1 sigri á Fulham á laugardaginn. Dýrlingarnir eru í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og í fallbaráttu eins og staðan er núna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×