Erlent

„Framkvæmdatími“ Trump fer í sjónvarp, símtöl og tíst

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump finnst gott að halda til í íbúð sinni, horfa á sjónvarpið, tala í símann og tísta, fram eftir morgni.
Trump finnst gott að halda til í íbúð sinni, horfa á sjónvarpið, tala í símann og tísta, fram eftir morgni. Vísir/AFP
Vinnudagur Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur styst frá því að hann tók fyrst við embætti. Forsetinn er sagður mæta seinna á skrifstofuna og taka færri fundi en áður. Í staðinn ver Trump meiri tíma í að horfa á sjónvarp og hanga á Twitter í vistarverum sínum í Hvíta húsinu.

Að sögn bandaríska fréttamiðilsins Axios sem fékk að sjá raunverulega dagskrá Trump, sem er nokkuð frábrugðin þeirri opinberu sem fjölmiðlar og almenningur fá yfirleitt að sjá, mætir forsetinn oft ekki á skrifstofuna fyrr en um klukkan ellefu á morgnana. Vinnudagur hans er tiltölulega stuttur, frá 11 til 18.

Breytingin á vinnutilhögun forsetans er sögð hafa verið gerð til rýma til fyrir sjónvarpsáhorf hans og Twitter-venjur. Tíminn sem hann ver í það er kallaður „framkvæmdatími“ í dagskrá hans. Embættismenn í Hvíta húsinu segja að framkvæmdatímann nýti Trump fyrst og fremst í að horfa á sjónvarpið, tala í símann og tísta einn í íbúð sinni.

Þannig sé tíminn frá 8 til 11 alla morgna lagður undir „framkvæmdatíma“. Eftir það mæti Trump á forsetaskrifstofuna fyrir fyrsta fund dagsins. Til samanburðar nefnir Axios að George Bush yngri hafi yfirleitt verið mættur á skrifstofuna kl. 6:45 á morgnana. Barack Obama hafi yfirleitt byrjað á líkamsrækt áður en hann mætti á milli níu og tíu.

Segir forsetann einn þann vinnusamasta sem hún hefur séð

Axios segir að vinnudagar Trump hafi verið lengri fyrst eftir að hann tók við embætti í fyrra. Dagskráin hafi byrjað fyrr en endað seinna. Forsetinn hafi hins vegar kunnað illa við svo langa dagskrá og ýtt á eftir því að dagskráin byrjaði seinna á daginn.

Sarah Huckabee Sanders, blaðafulltrúi Hvíta hússins, segir að Trump verji morgnunum að hluta til í íbúð sinni og að hluta til á skrifstofunni en hann eigi reglulega símtöl við starfslið sitt, þingmenn, ráðherra og erlenda leiðtoga. Sjálf segir hún að Trump sé einn vinnusamasti maður sem hún hafi nokkru sinni séð. Blaðamenn hafi margoft óskað þess að forsetinn hægði á sér því þeir ættu erfitt með að halda í við hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×