Skoðun

Að hlaupa í vörn fyrir trúræði

Stefán Karlsson skrifar
Ég hef oft furðað mig á að í hvert skipti sem íslam verður fyrir gagnrýni reka sumir þeir sem teljast frjálslyndir eða til vinstri á pólitíska litrófinu upp ramakvein og hrópa rasisti eða íslamfælni á meðan skotleyfi er gefið á kristindóminn. Viðbrögðin eru alltaf þau sömu jafnvel þótt gagnrýninni sé fyrst og fremst beint að öfgafyllstu afbrigðum trúarinnar. Ég taldi því ómaksins vert að kynna mér heimasíðu Menningarseturs múslíma á Íslandi til að fræðast um þá trúarlegu hugmyndafræði sem sumt vinstrisinnað og frjálslynd fólk telur vera undanskilda gagnrýni.

Íslam: Andlegt og veraldlegt trúræði

Á heimasíðunni segir að guð sé ekki aðeins skapari mannsins og alheimsins. Hann sé líka löggjafinn, leiðbeinandinn og sá sem dæmir. Orð guðs eins og Kóraninn boðar þau og spámaðurinn lifði þau séu lög í öllum tilvikum. Kóraninn sé því bæði grundvöllur íslamskra kenninga og laga. Andlegt og veraldlegt vald séu ekki tveir sundurskildir þættir af eðli mannsins heldur samofnir. Trúin skipuleggi mannlífið á öllum sviðum þess, einkalífið, félagslífið, stjórnmál og andleg mál. Hún varði veginn til minnstu smáatriða í öllum þessum þáttum. Í íslam sé að finna lausn á öllum vandamálum tilverunnar.

Íslam leggi manninum ákveðnar lífsreglur til að fara eftir á vegferð sinni. Íslam sé því ekki bara persónulegt samband einstaklingsins við guð heldur lífsmáti, sem áhangendum trúarinnar beri að haga lífi sínu í samræmi við í sérhverju tilliti. Leiðsögn trúarinnar sé alhliða og nái til allra þátta lífsins. Ekkert svið mannlífsins sé undanþegið hinu altæka og víðtæka siðakerfi trúarinnar. Það teygi arma sína allt frá heimilislífinu og út í þjóðfélagið, frá matborðinu að orrustuvellinum, frá vöggu til grafar í bókstaflegum skilningi. Siðaboðin nái m.ö.o. bæði til einkalífs og samfélags, varði fjölskyldubönd og borgaralega hegðun, þátttöku á opinberum vettvangi, í stjórnmálum, á sviði efnahagsmála, lagasetninga, mennta- og félagsmála. Til að tryggja að þau séu haldin í heiðri setji íslam þeim stoð í lögum. Það sé líka nauðsynlegt að menntakerfið byggist algerlega á íslömskum meginreglum og draga verði úr áhrifum framandi menningar og siðferðislegra gilda og viðmiða að svo miklu leyti sem þau séu neikvæð.

Á heimasíðunni segir að í trúarlegu samhengi merki hugtakið íslam algera undirgefni við vilja guðs. Íslam gæti virst framandi og jafnvel öfgakennd trú í heimi nútímans. Það stafi ef til vill af því að trúarbrögð stjórni ekki daglegu lífi í vestrænum samfélögum en þau séu alltaf efst í huga múslíma, sem gera engan greinarmun á því veraldlega og heilaga. Múslímar trúi að hin guðlegu lög, saría, ætti að taka mjög alvarlega sem sé ástæðan fyrir því að málefni sem tengjast trúarbrögðum eru ennþá svona mikilvæg.

Þegar vestræn áhrif hafi farið að breiðast út til íslamska heimsins hafi smám saman komið fram ný samtök sem höfðu það markmið að gera samfélagslegar umbætur í anda íslam og koma í veg fyrir að samfélagið yrði veraldarhyggju að bráð. Þar megi nefna hið egypska Múslímska bræðralag, sem ásamt trúarlegum greinum í mörgum múslímskum löndum og Jamaat-i islam í Pakistan, stofnaði hin áhrifamiklu samtök Mawlana Mawdudi. Þessi samtök hafi yfirleitt verið friðsamleg og barist fyrir því að koma á íslömsku skipulagi fyrir tilstilli uppfræðslu. Vegna vonbrigða margra múslíma vegna þrýstings frá hinum veraldlega ytra heimi, hafi sumir þeirra leitast við að hafna neikvæðum þáttum vestrænnar hugsunar og menningar á síðustu tveimur áratugum og lagt áherslu á að taka upp virka baráttu fyrir íslömsku samfélagi, sem er algerlega byggt á saríalögum. Í löndum eins og Sádi-Arabíu séu íslömsk lög þegar í gildi og þau séu í reynd ástæðan fyrir hagsæld og stöðugleika landsins. Í öðrum löndum þar sem íslömsk lög séu ekki í gildi fari mest orka íslamskra samtaka hins vegar í það að innleiða saríalög fyrir fullt og allt svo að þjóðir heimsins geti notið hagsældar ásamt því að uppfylla trúarlegar þarfir þegnanna. Hvað sem öðru líði megi ekki jafna almennri þrá múslíma eftir því að búa við trúarleg lög íslams og að krefjast aftur viðurkenningar á trúarlegum gildum sínum og sjálfsmynd við tilviljunarkennd ofbeldisverk sem eru til en yfirleitt fjallað um með vanstillingu og blásin upp úr öllu valdi í fjölmiðlum á Vesturlöndum.

Réttindi kvenna í íslam: „Jöfn réttindi“ en ekki þau sömu

Á heimasíðunni segir að réttindi og ábyrgð kvenna í íslam séu jöfn því sem karlar hafa en þau séu ekki endilega þau sömu. Þessi aðgreining milli jafnra réttinda og sömu réttinda sé mjög mikilvæg. Það sé engin ástæða til að ganga út frá að konan sé ekki eins mikilvæg og karlinn þótt réttindi hennar séu ekki þau sömu og hans. Ef staða hennar væri sú sama og hans væri hún einfaldlega nákvæm eftirmynd hans sem hún sé ekki. Staðreyndin sé sú að íslam veiti henni sömu réttindi og karlinum en þau séu ekki þau sömu.

Staða kvenna í íslam sé alveg einstök, eitthvað nýtt sem á sér enga hliðstæðu í neinu öðru samfélagi. Í hinum vestræna heimi sé staða hennar ekki öfundsverð. Hún verið að leggja mikið á sig til að sjá sér farborða. Hún njóti eins konar frelsis sem í sumum tilvikum megi líkja við siðleysi. Til að öðlast réttindi til menntunar og þátttöku á vinnumarkaðnum hafi hún orðið að færa miklar fórnir og orðið að afsala sér mörgum af sínum náttúrulegu réttindum. Og þrátt fyrir þessar kostnaðarsömu fórnir og sársaukafullu baráttu hafi hún ekki öðlast það sem íslam hafi komið á með guðlegri tilskipun fyrir múslímsku konuna. Nútímakonan hafi áunnið stöðu sína í nútímanum með valdi en ekki fyrir tilstilli eðlilegrar þróunar, gagnkvæms samkomulags eða guðlegra kenninga.

Á heimasíðunni er fullyrt að sú staðreynd standi óhögguð að hvers kyns réttindi sem nútímakonan njóti jafnist ekki á við þau réttindi sem múslímsk kynsystir hennar hafi. Það fyrirkomulag sem íslam hafi komið á fyrir konuna sé það sem henti eðli hennar, tryggi henni fullkomið öryggi og verndi hana gegn auðmýkjandi kringumstæðum og óvissum lífsaðstæðum. Það sé ólíku saman að jafna þegar staða múslímsku konunnar er borin saman við stöðu nútímakonunnar á Vesturlöndum með þeirri kvöð sem fylgi því að þurfa að sjá fyrir sér eða koma undir sig fótunum svo að ekki sé minnast á þá vanlíðan og bakslag sem m.a. hrjái hana vegna svokallaðra kvenréttinda. Í því sambandi megi líka nefna mörg dæmi um óhamingjusöm heimili sem flosna upp vegna þess „frelsis“ og þeirra „réttinda“ sem nútímakonan er svo stolt af. Flestar konur í nútímanum færi sér í nyt réttinn til frelsis til að fara út á eigin vegum, að vinna og afla tekna, að þykjast vera jafnoki karlsins en það sé því miður á kostnað fjölskyldna þeirra. Í íslam sé konan viðurkennd sem fullkomlega jafnrétthá karlinum með tilliti til fjölgunar mannkynsins. Hann sé faðirinn; hún sé móðirin og að bæði séu nauðsynleg.

Í sambandi við erfðarétt eigi spurningin um jöfn réttindi og sömu réttindi vel við. Í raun og veru hafa bæði karlinn og konan sama rétt til að erfa eignir látinna ættingja en sá arfur sem kemur í þeirra hlut geti verið mismikill. Í sumum tilfellum fái karlinn tvöfaldan hlut en konan aðeins einn. Þetta feli ekki í sér forréttinda eða æðri stöðu karlsins gagnvart konunni. Ástæðurnar fyrir því að karlinn fær meira í þessum sérstöku tilfellum sé hægt að flokka með eftirfarandi hætti:

Í fyrsta lagi sé karlinn sá aðili sem sé einn ábyrgur fyrir öllu uppihaldi konu sinnar, fjölskyldu og allra annarra þurfandi ættingja. Það sé lagaleg skylda hans að taka að sér allar fjárhagslegar skuldbindingar á fullnægjandi framfærslu þeirra sem eru honum háðir. Það sé einnig skylda hans að leggja sitt af mörkum til allra góðra málefna samfélagsins. Öll fjárhagsleg byrði hvílir eingöngu á hans herðum.

Í öðru lagi beri konan alls enga fjárhagslega ábyrgð af neinu tagi að undanskildum smávægilegum persónulegum útgjöldum vegna tískuvarnings og snyrtivara í eigin þágu. Hún sé fjárhagslega örugg og fyrir henni er séð. Ef hún er eiginkona sé eiginmaðurinn hennar forsjármaður; ef hún er móðir sé það sonur hennar; ef hún er dóttir sé það faðir hennar; ef hún er systir sé það bróðir hennar o.s.frv. Ef hún eigi enga ættingja sem hún getur reitt sig á komi enginn arfur til greina vegna þess að það er ekkert til að erfa og það er engum til að dreifa til að ánafna henni arfshlut. Samt muni hún ekki vera látin svelta, uppihald slíkrar konu sé á ábyrgð samfélagsins alls, ríkisins.

Í þriðja lagi megi nefna að þegar konan fær minna en karlinn, sé hún í raun og veru ekki svipt neinu sem hún hefur unnið fyrir. Arfurinn sé ekki sprottinn af tekjum hennar eða framtakssemi. Hann sé eins konar aðstoð og sérhverri aðstoð verði að útdeila samkvæmt brýnni þörf og ábyrgð, sérstaklega þegar útdeilingin stýrist af lögmáli guðs.

Á heimasíðunni segir einnig að annars vegar sé um að ræða karlkyns erfingja sem er íþyngdur af fjárhagslegri ábyrgð og skuldbindingum af alls kyns toga. Hins vegar sé um að ræða kvenkyns erfingja sem ber alls enga eða litla fjárhagslega ábyrgð. Þrátt fyrir það sé samt óréttlátt að svipta konuna öllum arfi vegna þess að hún sé tengd hinum látna. Með því samt að gefa henni jafnan hlut og karlinum væri það óréttlátt gagnvart honum. Svo að til þess að sýna báðum aðilum réttlæti gefi íslam karlinum stærri hlutdeild í arfinum til að hjálpa honum að mæta þörfum fjölskyldu sinnar og sinna félagslegri ábyrgð. Á sama tíma hafi íslam ekki gleymt henni að öllu leyti heldur gefið henni hlut til að fullnægja hennar brýnustu persónulegu þörfum. Í raun og veru sýni íslam henni meira örlæti en karlinum í þessu tilliti. Hérna megi segja að þegar á allt sé litið séu réttindi konunnar jöfn réttindum karlsins þrátt fyrir að þau séu ekki endilega þau sömu (sjá Kóraninn 4:11-14).

Í sumum tilfellum gildi sú regla að þegar bera þarf vitni í tengslum við vissa borgaralega samninga þurfi vitnisburð eins karlmanns og tveggja kvenna. Enn og aftur sé þetta engin vísbending um að konan sé karlinum óæðri. Þetta sé aðferð til að tryggja réttindi samningsaðila vegna þess að staðreyndin sé sú að konan hafi ekki jafn mikla reynslu í praktísku lífi eins og karlmaðurinn. Þetta reynsluleysi geti valdið aðilum tjóni í tilteknum samningum. Þannig að lögin krefjist þess að vitnisburður að minnsta kosti tveggja kvenna jafngildi vitnisburði eins karlmanns. Ef kona, sem ber vitni, gleymi einhverju muni hin minna hana á. Eða ef hún geri mistök vegna reynsluleysis, muni hin hjálpa til við að leiðrétta hana. Þetta sé varúðarráðstöfun til þess að tryggja heiðarlega framkvæmd og réttlát samskipti milli manna. Í raun og veru gefi þetta konunni tækifæri til að taka þátt í borgaralegu lífi og hjálpi til við að koma á réttlæti. Hvað sem öðru líður þýði skortur á reynslu í borgaralegu lífi ekki nauðsynlega að konan sé karlinum óæðri í sinni stöðu. Öllum mönnum skorti eitt eða annað en samt dregur enginn mannlega stöðu þeirra í efa (Kóran 2:282).

Konan njóti vissra forréttinda sem karlinn hefur ekki. Hún eigi rétt á því að eiginmaðurinn tryggi henni fullnægjandi afkomu og uppihald. Hún þurfi hvorki að vinna né deila fjölskylduútgjöldum með eiginmanni sínum. Sem dóttir eða systir eigi hún rétt á því að faðir hennar eða bræður tryggi öryggi hennar og uppihald eftir því sem við á. Það séu hennar forréttindi. Ef hún vilji vinna eða sjá fyrir sjálfri sér og taka þátt í framfærslu fjölskyldunnar sé henni það fullkomlega heimilt að því tilskyldu að ráðvendni hennar og heiður séu tryggð.

Múslímska konan sé alltaf bundin gamalli hefð sem kennd er við „slæðuna.“ Það sé íslamskur siður að konan skuli prýða sig með slæðu heiðurs, sæmdar, siðsemi, hreinlífis og ráðvendni. Hún ætti að forðast allar athafnir og látbragð sem gæti vakið ástríður annarra manna en hennar lögmæta eiginmanns eða skapa efasemdir um siðferði hennar. Hún sé vöruð við því að sýna þokka sinn eða afhjúpa líkamlegt aðdráttarafl sitt gagnvart ókunnugum. Slæðan sem hún verði að setja upp sé eitt af því sem geti bjargað sál hennar frá veikleika, huga hennar frá undanlátssemi, augum hennar frá lostafullum augngotum og persónuleika hennar frá siðspillingu. Íslam leggi mest upp úr ráðvendni konunnar, að vernda siðferði hennar og siðferðisþrek og að slá skjaldborg um mannorð hennar og persónuleika (Kóran 24:30-31).

Af þessu sé ljóst að staða konunnar í íslam sé tvímælalaust góð og í raun og veru í samræmi við eðli hennar. Réttindi hennar og skyldur séu jöfn réttindum og skyldum karlsins en samt ekki endilega eða skilyrðislaust þær sömu og hans. Ef hún sé svipt tilteknum réttindum á sumum sviðum sé henni bætt það upp að fullu með margvíslegum hætti á öðrum sviðum. Sú staðreynd að hún tilheyri kvenkyninu hafi engar íþyngjandi afleiðingar fyrir stöðu hennar sem manneskju eða hennar sjálfstæða persónuleika og sé engin réttlæting fyrir fordómum gagnvart henni eða því að beita hana óréttlæti. Íslam gefi henni eins mikið og krafist er af henni. Réttindi hennar séu í fallegu samræmi við skyldur hennar. Jafnvægið milli réttinda og skylda sé viðhaldið og hvorugur aðilinn íþyngi hinum.

Mannréttindi: Vesturlönd og íslam

Á heimasíðunni segir að því sé haldið fram að mannréttindahugtakið sé sótt til vestræns menningarumhverfis og birtist t.d. í ályktunum Sameinuðu þjóðanna. Vestræn mannréttindi standi hins vegar langt að baki þeim guðlegu réttindum sem séu samofin íslamskri trú og múslímsk stjórnvöld séu skuldbundin til að viðurkenna og framfylgja. Þeir tímabundnu stjórnendur sem líti á réttindi sem byggja á mannanna verkum sem rétt en þau sem koma frá guði sem röng séu vantrúaðir, misgjörðarmenn og illvirkjar. Þau réttindi sem guð hafi staðfest séu varanleg, stöðug og eilíf. Á þeim sé ekki þörf á neinum breytingum eða lagfæringum og ekkert svigrúm sé fyrir neinar ógildingar eða niðurfellingar. Og þar sem íslömsk mannréttindi séu staðfest af guði hafi engin löggjafarsamkoma í heiminum, engin stjórnvöld á jörðu rétt eða heimild til að gera á þeim neinar leiðréttingar eða breytingar.

Í íslam séu í gildi nokkur réttindi sem allir múslímar ættu að viðurkenna. Þau gildi fyrir alla menn hvort sem þeir lifa í einhverjum skógi eða í einhverri eyðimörk; hver sem ástæðan sé hafi maðurinn nokkur grundvallar mannréttindi vegna þess að hann sé mannleg vera.

Í fyrsta lagi sé það rétturinn til lífsins. Hinn heilagi Kóran segi: „Hver sá sem drepur mannlega veru (án nokkurrar ástæðu eins og vegna) manndráps eða siðspillingar á jörðu er það eins og að hann hafi drepið allt mannkynið“ (súra 5:32).

Að svo miklu leyti sem spurningin snúist um að taka líf sem hefnd fyrir morð eða refsingu fyrir að dreifa siðspillingu á jörðu sé refsingin ákveðin af viðurkenndum og lögmætum dómstólum. Í því sambandi vitnar heimasíðan í Kóraninn þar sem segir : „Dreptu enga lifandi sál sem Allah hefur helgað nema fyrir tilstilli lagalegrar málsmeðferðar“ (súra 6:151).

Í þessu sambandi verði einnig að gera greinarmun á manndrápi og aftöku til að ná fram réttlæti. Aðeins viðurkenndur og lögmætur dómstóll geti ákveðið hvort einstaklingur hafi fyrirgert rétti sínum til lífsins með því að virða að vettugi lífsréttindi og friðhelgi annarra manna. Spámaðurinn hafi lýst því yfir að manndráp sé mesta syndin næst á eftir fjölgyðistrú. Jafnvel þótt einstaklingur tilheyri frumstæðum ættbálki eða villimönnum líti íslam samt á hann sem mannlega veru.

Á heimasíðunni er tekið fram að það sé einnig mikilvægt mannréttindaákvæði í anda íslam að virða hreinleika konunnar og vernda hana undir öllum kringumstæðum hvort sem hún tilheyri eigin þjóð eða þjóð óvinarins, hvort sem hana sé að finna í villtum skógi eða í hertekinni borg; hvort sem hún sé trúsystir eða tilheyri öðrum trúarbrögðum eða trúarbrögðum yfir höfuð. Þessi hugmynd um mikilvægi hreinleikans og vernd konunnar sé hvergi að finna nema í íslam. Auk þess hafi íslam með skýrum og eindregnum hætti bannað þá frumstæðu athöfn að handtaka frjálsan mann og gera hann að þræli eða selja hann í þrældóm þrátt fyrir að það beri að viðurkenna að ýmiss konar misbrestir hafi komið upp í því sambandi.

Varðandi tjáningarfrelsi segir á heimasíðunni að íslam veiti öllum borgurum íslamska ríkisins frelsi til hugsunar og tjáningar með þeim skilyrðum að það sé notað til að útbreiða dyggðir og sannleika en ekki siðspillingu og illkvittni. Þetta íslamska hugtak um tjáningarfrelsi hafi mikla yfirburði yfir það hugtak sem tíðkast á Vesturlöndum. Undir engum kringumstæðum myndi íslam heimila að breiða út illkvittni og siðspillingu. Tjáningarfrelsið gefi engum réttinn til að nota hrakyrði og móðgandi orðfæri í nafni gagnrýni. Rétturinn til tjáningarfrelsis í þeim tilgangi að útbreiða dyggðir og réttlæti sé ekki aðeins réttur í íslam heldur skylda. Sá sem reyni að neita þjóð sinni um þessi réttindi sé opinberlega í stríði við guð almáttugan.

Í sambandi við jafnrétti fyrir lögum segir á heimasíðunni að í Kóraninum og hadíðunum sé að finna skýrar leiðbeiningar sem kveði á um að allir múslímar séu jafnir hvað varðar réttindi og skyldur. Þeir trúuðu séu bræður (hvers annars, súra 49:10). „Ef þeir (vantrúuðu) iðrist og haldi sig við bænir og greiði sinn skylduskatt (ipoor-due) séu þeir bræður múslíma í trúnni“ (súra 9:11).

Hins vegar eigi illvirkjar á borð við þá sem leiða spillingu yfir samfélög, þeir sem afneita framhaldslífi og þeir sem leggja sig fram um að hrekja opinberanir trúarinnar svo að ekki sé minnst á þá sem fremja þá höfuðsynd að tengja einhvern annan guðdóm við hinn eina sanna guð, Allah, ekkert gott skilið, hvorki af hálfu samfélagsins né guðs. Þar sem guð sé réttlátur fái þeir sinn skerf af refsingu Allah en þeir dyggðugu njóti gjafar hans og velþóknunar. Allir misgjörðarmenn verði að þola kvalir og skelfilegar píningar (súra 34:3-5).

Niðurstöður

Samkvæmt heimsíðunni má ráða að íslam boði trúræði sem er svo altækt að líkja má við alræði. Markmið trúarinnar er að koma á saríalögum sem eru í fullkominni í andstöðu við bæði stjórnarskrá Íslands og það lagakerfi sem við búum við.

Afstaðan til réttinda kvenna er líka mjög framandi fyrir okkar menningu og hugsunarhátt. Konan hefur ekki sama vægi og karlinn. Meginhugmyndin virðist vera sú að það sé eðlilegt ástand að hún sé algerlega upp á karlmanninn komin varðandi afkomu. Hlutverk hennar virðist fyrst og fremst tengjast undaneldi og hún verður að sætta sig við þá mola sem hrökkva af borði karlsins. Hún hefur ekki sama rétt og karlinn varðandi erfðir þar sem hann fær tvöfaldan hlut en konan aðeins einn. Í sambandi við vitnaleiðslur gildir sú regla að vitnisburður tveggja kvenna jafngildi vitnisburði eins karls. Á Vesturlöndum kallast þetta ekki kvenréttindi þó að á heimasíðunni sé reynt að láta líta svo út með furðulegum loftfimleikum. Það er undarlegt til þess að vita að margir vestrænir femínistar hafa hlaupið í vörn fyrir þessa stefnu.

Varðandi mannréttindi er dauðarefsing heimiluð fyrir manndráp og fyrir að útbreiða spillingu á jörðu. Það er háð geðþótta íslamskra yfirvalda að skera úr um hvað flokkast undir spillingu á jörðu. Fjölmörg dæmi má nefna frá íslömskum ríkjum þar sem menn hafa verið dæmdir til dauða fyrir guðlast. Sem dæmi má nefna íranska ljóðskáldið Hashem Shaabani sem var tekinn af lífi í febrúar árið 2014 fyrir að „heyja stríð gegn guði“ og útbreiða „spillingu á jörðu“ eins og það var kallað.

Auk þess má nefna að tjáningarfrelsinu eru settar þröngar skorður. Rétturinn til tjáningarfrelsis takmarkast við það að útbreiða dyggðir og réttlæti eins og það er skilgreint innan trúarinnar. Ekki virðist heldur ríkja jafnrétti gagnvart lögum þar sem sérstaklega er greint á milli réttinda múslíma annars vegar og þeirra sem aðhyllast annars konar trúarbrögð hins vegar. Af heimasíðunni má ráða að litið sé á þá síðarnefndu sem annars flokks borgara og að lagaleg réttindi þeirra séu ekki sjálfgefin heldur háð trúarlegum skilyrðum í anda íslam.

Þetta er sá faðmur sem Rauði kross Íslands er að vísa sýrlensku flóttafólki í og þetta er sú stefna sem sumir vinstri menn og frjálslyndir hlaupa í vörn fyrir.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×