Enski boltinn

Fékk sex leikja bann fyrir að hrækja á mótherja sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Allt varð vitlaust eftir að Samu Saiz hrækti á mótherja sinn.
Allt varð vitlaust eftir að Samu Saiz hrækti á mótherja sinn. Vísir/Getty
Leeds verður án síns besta leikmanns á næstu vikum. Samu Saiz var í dag dæmdur í sex leikja bann fyrir að hrækja á mótherja í bikarleik Leeds og Newport um helgina.

Leeds tapaði leiknum 2-1 og er því úr leik í bikarnum. Liðið er hinsvegar enn með í baráttunni um sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Samu Saiz fékk rauða spjaldið í uppbótartíma leiksins en það var Mike Dean sem sendi hann í sturtu.

„Ég lofa öllum sem tengjast Leeds að ég muni læra af þessu og aldrei gera þetta aftur,“ sagði Samu Saiz í fréttattilkynningu á heimasíðu Leeds.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Samu Saiz sakaður um að hrækja á mótherja en Michael Brown, stjóri Port Vale, sakaði hann um að hrækja á sinn leikmann í sigri Leeds á Port Vale í enska deildbikarnum í ágúst. Saiz skoraði þrennu í leiknum.

Það er mikill missir af Samu Saiz sem margir telja vera besta leikmann Leeds-liðsins. Hann er 26 ára og hefur skorað 5 mörk og gefið 5 stoðsendingar í 22 leikjum í ensku b-deildinni í vetur. Hann er alls með 9 mörk í 26 leikjum í öllum keppnum.  

Samu Saiz verður klár gegn Derby 20. febrúar en það er leikur á milli tveggja liða sem eru líkleg til fara upp í vor.

Leeds er eins og er í sjötta sæti deildarinnar og er sex stigum á eftir Derby. Saiz þarf nú að treysta á liðsfélaga sína svo að eitthvað verði nú undir í leiknum á móti Derby eftir sex vikur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×