Enski boltinn

Coutinho: Liverpool mun alltaf eiga stað í hjarta mínu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Coutinho í nýja búningnum.
Coutinho í nýja búningnum. vísir/getty
Brasilíumaðurinn Philippe Coutinho vonar að stuðningsmenn Liverpool skilji ákvörðun hans að fara til Barcelona.

Það var stór dagur í lífi hans í gær er hann skrifaði undir rúmlega fimm ára samning við Barcelona og varð um leið dýrasti leikmaður í sögu félagsins. Hann kostaði 142 milljónir punda.

Hann skoraði 54 mörk í 201 leik fyrir Liverpool og vonar að frammistaða sín hafi skilið eftir góðar minningar hjá stuðningsmönnum Liverpool.

„Ég vona að stuðningsmenn Liverpool skilji að þó svo mig hafi langað til þess að upplifa eitthvað nýtt þá gerir það á engan hátt lítið úr Liverpool eða stuðningsmönnum þessþ Liverpool mun alltaf eiga stað í hjarta mínu,“ skrifaði Coutinho en hann segist afar þakklátur öllum hjá Liverpool fyrir þann frábæra tíma sem hann átti þar.

„Ég vissi allt um glæsta sögu Liverpool er ég fór þangað en ég lærði um hið einstaka hjarta og sál sem er hjá félaginu. Ég fer frá Liverpool því það er draumur hjá mér að spila með Barcelona. Liverpool var líka draumur sem ég var svo heppinn að fá að upplifa. Ferill leikmanna er stuttur og ég vildi upplifa að fá að spila bæði með Liverpool og Barcelona. Ég óska Liverpool alls hins besta. Það er magnað lið sem er alltaf að verða betra.“


Tengdar fréttir

Coutinho: Draumur að rætast

Philippe Coutinho varð um helgina dýrasti leikmaðurinn í sögu Barcelona er félagið greiddi Liverpool 142 milljónir punda fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×