Erlent

Dýrin þjást í hitabylgju í Ástralíu

Kjartan Kjartansson skrifar
Dýralífsstarfsmenn segja að hitinn hreinilega steiki heilann í leðurblökunum sem hafa drepist í hrönnum.
Dýralífsstarfsmenn segja að hitinn hreinilega steiki heilann í leðurblökunum sem hafa drepist í hrönnum. Vísir/AFP
Gríðarlegur hiti hefur þjakað menn og málleysingja í Ástralíu undanfarna daga. Hundruð leðurblakna hafa drepist í hitanum og hundeigandi hefur verið ákærður fyrir dýraníð fyrir að skilja hundinn eftir í bíl.

Hitinn náði 47,3°C í Sydney á sunnudag. Það var heitasti dagur í borginni frá árinu 1939, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Dýralífsstarfsmenn segja að hitinn leggist sérstaklega þungt á leðurblökur, fugla og pokarottur. Þeir hafa aðstoðað ungar leðurblökur í hitakófi og gefið þeim vatn. Einnig hafa þeir hjúkrað pokarottum sem hafa brennt sig á loppunum á heitum húsþökum og vegum og gefið fuglum vatn.

„Alltaf þegar svona hitabylgjur ganga yfir vitum við að það verða mörg dýr nauðstödd,“ segir Kristie Harris frá Upplýsinga-, björgunar og menntunarþjónustu dýralífs í Nýja Suður-Wales.

Þá var 28 ára gömul kona ákærð fyrir að skilja sjö vikna gamlan hvolp eftir í lokuðum bíl fyrir utan verslunarmiðstöð í hitanum. Lögreglumenn brutu rúðu í bílnum til að forða hvolpinum úr hitanum sem mældist 65°C. Hvolpinum var gefið vatn og hann færður í loftkældan lögreglubíl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×