Erlent

Japanskur geimfari óttast að komast ekki til jarðar eftir vaxtarkipp

Kjartan Kjartansson skrifar
Kanai hélt til geimstöðvarinnar 17. desember og á að vera þar fram í júní.
Kanai hélt til geimstöðvarinnar 17. desember og á að vera þar fram í júní. Vísir/AFP
Uppfært 11.1.2017 Japanski geimfarinn baðst afsökunar á mistökum eftir að fjölmiðlar um allan heim tóku upp fréttir um ótrúlegan vöxt hans í geimnum. Í ljós kom að hann gerði mistök við mælingu. Í raun teygðist úr honum um tvo sentímetra.



Norishige Kanai, japanskur geimfari um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni, hefur hækkað um níu sentímetra frá því að hann kom til stöðvarinnar fyrir þremur vikum. Hann segist vera farinn að hafa áhyggjur af því að hann passi ekki lengur í sæti geimfarsins sem á að ferja hann heim í sumar.

Alvanalegt er að geimfarar hækki í nær þyngdarleysi geimsins. Að meðaltali stækka þeir um tvo til fimm sentímetra. Ástæðan er sú að liðirnir í hryggjarsúlu þeirra færast í sundur þegar þyngdarkraftur jarðar þrýstir þeim ekki lengur saman.

Vaxtarkippur Kanai er óvenjumikill. Takmörk eru fyrir því hversu hátt fólk kemst fyrir í rússneska Soyuz-geimfarinu sem á að flytja Kanai og félaga hans aftur til jarðar í júní.

„Ég stækkaði eins og einhver planta á bara þremur vikum. Ekkert þessu líkt frá því í menntaskóla. Ég hef smá áhyggjur af því að hvort ég passi í Soyuz-sætið þegar ég fer aftur heim,“ skrifaði Kanai á Twitter en hann er í sinni fyrstu geimferð.

Libby Jackson frá bresku geimstofnuninni segir breska ríkisútvarpinu BBC að það geti verið einstaklingsbundið hversu mikið geimfarar hækka í geimnum. Geimfarar snúa yfirleitt aftur í fyrri hæð þegar þeir koma aftur til jarðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×