Lífið

Ég var alltaf hrifnari af vélum en hestum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Það var meiri samkennd áður fyrr,“ segir Brynleifur en lætur samt vel af vistinni á Skjóli.
"Það var meiri samkennd áður fyrr,“ segir Brynleifur en lætur samt vel af vistinni á Skjóli. Vísir/Vilhelm
Hingað til hefur fólk í minni fjölskyldu bara dáið á venjulegum aldri, til dæmis systkini mín. Það á enginn að verða svona gamall,“ segir hinn hundrað ára Brynleifur Sigurjónsson bifreiðastjóri inntur eftir hvort langlífið sé ættgengt. En hann situr teinréttur í hægindastól í herbergi sínu á Skjóli í Reykjavík. Þó hann segi ýmislegt hrjá hann, les hann enn sér til skemmtunar og á borði er tafl til taks, enda kveðst hann hafa gaman af að taka eina og eina skák.

Brynleifur ólst upp að Geldingaholti í Skagafirði frá fimm ára aldri, yngstur í sex systkina hópi, en fæddist að Gili í Svartárdal, hinum megin við Vatnsskarðið og á sína fyrstu minningu þaðan. „Ég sofnaði iðulega á stórum steini sem gekk út í lækinn rétt við bæinn, niðurinn var svo róandi.“

Geldingaholt er í miðri sveit og stutt til næstu bæja. Brynleifur fylgdist með þéttbýlinu í Varmahlíð verða til og var meðal sjálfboðaliða sem byggðu þar upp sundlaug. Hann kveðst ekki skáld og ber líka af sér að vera söngmaður. „En það er söngfólk  í ættinni,“ segir hann og nefnir Álftagerðisbræður. Hestamaður? „Nei, ég hafði meiri áhuga á vélum. Það var bylting þegar þær komu,“ segir hann brosandi og minnist ársins 1946 þegar bræður hans keyptu bæði jeppa og Ferguson á heimilið. Þá var gaman að lifa.

Fljótlega eftir að Brynleifur flutti suður fór hann út í leigubílaakstur, ásamt félaga sínum Vagni Kristjánssyni, og gekk í bílstjórafélagið Hreyfil. „Maður kynntist mörgum kringum aksturinn. Ég keyrði til dæmis oft Steingrím Steinþórsson forsætisráðherra, sem var fínasti karl, alveg framúrskarandi. Síðar fórum við Vagn út í vöruflutninga og vorum í þeim í áratugi. Keyrðum öl frá Ölgerðinni til Akureyrar og Bragakaffi og aðrar iðnaðarvörur suður,“ lýsir Brynleifur sem bjó lengst af í Þingholtunum með konu sinni, Öldu Gísladóttur, sem hann missti árið 2011 eftir 55 ára sambúð.

 Brynleifur  brosir þegar hann rifjar upp afmælin í æsku „Það var hitað súkkulaði og borðað eitthvað gott með,“ segir hann og býst líka við að hellt verði á könnuna síðdegis í dag í sal á Skúlagötu 40, í tilefni aldarafmælisins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×