Enski boltinn

Moneyball-gaurinn mættur í enska boltann

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Það verður ítarlega fylgst með Billy Beane í enska boltanum.
Það verður ítarlega fylgst með Billy Beane í enska boltanum. vísir/getty
Það gæti farið að birta til hjá enska knattspyrnufélaginu Barnsley eftir að moldríkir Kínverjar keyptu félagið og fengu til sín manninn sem gjörbylti hafnaboltaheiminum og myndin Moneyball var gerð um.

Patrick Cryne hefur verið eigandi Barnsley í þrettán ár en er með krabbamein og á lítið eftir. Hann vildi koma félaginu í góðar hendur áður en hann kveður þennan heim.

Kínverjarnir eru búnir að setja Bandaríkjamanninn Billy Beane í stjórnina og hann mun vera með puttana í því hvernig félagið verður byggt upp. Barnsley er í fallbaráttu í B-deildinni í dag.

Beane beitti byltingarkenndum aðferðum hjá Oakland, þegar hann mat leikmenn út frá tölfræði með góðum árangri. Eftir góðan árangur Oakland tímabilið 2001-02, þar sem liðið vann m.a. 20 leiki í röð, fékk Beane risa tilboð frá Boston Red Sox um að gerast framkvæmdastjóri félagsins en hafnaði því.

Tímabilinu 2001-02 hjá Oakland voru gerð skil í kvikmyndinni Moneyball sem var frumsýnd árið 2011. Myndin var tilnefnd til nokkurra Óskarsverðlauna. Pitt fékk m.a. tilnefningu sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir túlkun sína á Beane.

Beane prófaði sig fyrst áfram í knattspyrnunni árið 2015 er hann var ráðinn til AZ Alkmaar sem ráðgjafi. Beane hefur áður sagt að Arsene Wenger, stjóri Arsenal, sé átrúnaðargoð hans. Hann hefur hitt Wenger og rætt sínar aðferðir við hann sem og við Sir Alex Ferguson.

Verður mjög áhugavert að sjá hvað hann gerir hjá Barnsley á næstu mánuðum.


Tengdar fréttir

Moneyball til Jórvíkurskíris

Hafnaboltagoðsögnin Billy Beane, sem Brad Pitt lék í kvikmyndinni Moneyball, er hluti af hópi sem ætlar að kaupa enska B-deildarliðið Barnsley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×