Skoðun

Er sund hollara en líkamsrækt?

Guðmundur Edgarsson skrifar
Hvor sagan er trúverðugri, sú sanna eða ósanna?

Bjössi í World Class réðst í dýrar endurbætur á líkamsræktarstöð sinni í Laugum en sendi svo reikninginn á alla Reykvíkinga hvort sem þeir voru kúnnar eða ekki. Bjössi hafði búið svo um hnútana að enginn hægðarleikur var að komast hjá greiðslum. Borgarbúar mótmæltu hástöfum. Bjössi reyndi að róa mannskapinn með innblásinni ræðu um að líkamsrækt hefði mikið forvarnargildi og létti þannig á heilbrigðiskerfinu til hagsbóta fyrir samfélagið. Bjössi vitnaði meira að segja í rannsóknir lýðheilsufræðinga sem sýndu að stundi menn líkamsrækt, bæti það heilsuna svo um munar og lífslíkur aukast. En borgarbúar létu ekki segjast og þar kom að Bjössi afturkallaði rukkunina. Þrátt fyrir háleit sjónarmið Bjössa um samfélagsleg gildi dugði það ekki til. Fólk á ekki að þurfa að borga fyrir líkamsrækt sem það stundar ekki sjálft.

Dagur Eggerts réðst í dýrar endurbætur á Sundhöllinni en sendi svo reikninginn á alla borgarbúa hvort sem þeir voru kúnnar eða ekki. Engin leið var að komast hjá greiðslum. Lítið fór fyrir mótbárum enda flestir með djúpan skilning á hinu mikla forvarnargildi sem sund hefur. Lýðheilsufræðingarnir hafa jú margsinnis ályktað um heilsusamlegt gildi sundiðkunar. Því var endurbótum á Sundhöllinni rækilega fagnað um alla borg með tilheyrandi lofsöng fjölmiðla. Og dirfðist einhver að mótmæla fékk sá hinn sami að heyra að enginn neyddi hann til að fara í sund; hann gæti bara farið í World Class!

Þess ber svo að geta að Bjössi og Dagur reka fleiri líkamsræktar-og sundstaði en World Class í Laugum og Sundhöll Reykjavíkur. Í raun reka þeir álíka marga staði þvers og kruss um borgina. Þó er einn munur á. Bjössi rukkar bara þá sem sjálfviljugir kaupa aðgang; Dagur Eggerts rukkar hins vegar alla óháð vilja eða áhuga. Já, það er ólíkt viðskiptasiðferðið hjá þeim félögum, Bjössa og Degi.

 

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×