Erlent

Ekið á gangandi vegfarendur í miðborg Melbourne

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi í Melbourne í dag.
Frá vettvangi í Melbourne í dag. vísir/epa
Lögreglan í Melbourne hefur handtekið tvo menn, annan þeirra ökumann hvíts jeppa sem ók á gangandi vegfarendur í Melbourne upp úr klukkan 17 að staðartíma, eða klukkan 6 í morgun að íslenskum tíma.

Að minnsta kosti 14 manns eru slasaðir en ökumaðurinn bílsins keyrði á vegfarendur við Flinders Street sem er fjölfarin gata í miðborg Melbourne. Myndir frá vettvangi sýna fólk sem liggur í kringum hvítan jeppann.

Á meðal hinna slösuðu er ungt barn sem er með alvarlega höfuðáverka að því er fram kemur í frétt á vef BBC. Nokkrir hinna slösuðu eru einnig alvarlega slasaðir.

Vitni á vettvangi hefur lýst því hvernig ökumaðurinn keyrði niður fólk með þeim afleiðingum að „fólk flaug út um allt.“ Annað vitni segir að um 15 sekúndur hafi liðið frá því að ökumaðurinn hóf að aka á fólk og þar til bifreiðin stöðvaðist.

„Hann fór beint og hratt gegn rauðu ljósi og það kom bara bang, bang, bang. Hann keyrði á einn á eftir öðrum.“

Lögregla hefur hvatt fólk til að forðast svæðið sem hefur verið lokað af. Ekkert hefur verið gefið út um það að um hryðjuverk sé að ræða en lögreglan segir þó að um viljaverk hafi verið að ræða.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 08:13.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×