Enski boltinn

Mourinho sagði Hörð Björgvin og félaga heppna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho á leiknum í gær.
Jose Mourinho á leiknum í gær. Vísir/Getty
„Lið úr neðri deildunum vann. Þetta var stór dagur fyrir þá,“ sagði Jose Mourinho, stjóri Manchester United, eftir tap liðsins gegn Bristol City í 8-liða úrslitum enska deildabikarsins í gær.

Bristol City vann óvæntan 2-1 sigur á ríkjandi meisturum United í gærkvöldi og mætir Manchester City, toppliði ensku úrvalsdeildarinnar, í undanúrslitunum. Korey Smith skoraði dramatískt sigurmark Bristol í uppbótartíma leiksins.

„Þeir [leikmenn Bristol City] voru heppnir en þeir börðust líka fyrir heppninni. Það voru allir að bíða eftir markinu frá okkur þannig að þeir voru heppnir. Við skutum tvisvar í stöng.“

„En þeir spiluðu frábærlega og börðust eins og um leik lífsins væri að ræða sem hann var líklega. Þetta var fallegur dagur fyrir knattspyrnuna.“

Mourinho gerði tíu breytingar á byrjunarliði sínu frá síðasta leik og sagði að þeir leikmenn sem fengu tækifærið í gær hafi ekki nýtt það nægilega vel.

„Staðreyndin er sú að leikmennirnir sem voru inni á vellinum í kvöld spiluðu ekki í síðasta leik. Þeir munum ekki spila í næsta leik. Ég tel að þeir hafi líka glatað tækifæri til að spila í undanúrslitum og fá tvo leiki til viðbótar,“ sagði Mourinho enn fremur.


Tengdar fréttir

Hörður Björgvin mætir Man City

Hörður Björgvin Magnússon og félagar í Bristol City fá verðugt verkefni í undanúrslitum enska deildarbikarsins, en þeir drógust gegn liði Manchester City.

Dramatískar lokamínútur tryggðu Bristol sigur á United

Bristol City fer í undanúrslit enska deildarbikarsins eftir að hafa unnið meistara síðasta árs, Manchester United, í 8-liða úrslitunum. Chelsea fer með þeim í undanúrslitin eftir sigur á Bournemouth.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×