Erlent

Fjöldi morða nær nýjum hæðum í Mexíkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í Mexíkó.
Lögregluþjónar að störfum í Mexíkó. Vísir/AFP
Fjöldi morða hefur ekki verið hærri á ári en nú síðan mælingar hófust. Alls opnaði lögreglan í Mexíkó 23.101 rannsóknir vegna morða á fyrstu ellefu mánuðum ársins, sem samsvarar 18,7 morðum á hverja hundrað þúsund íbúa. Áður voru morðin flest árið 2011 og voru þau þá 22.409 en það var allt árið. Þá var hlutfallið aftur á móti 19,4 morð á hverja hundrað þúsund íbúa.

Mælingar hófust árið 1997.

Um töluvert högg er að ræða fyrir Enrique Pena Nieto, forseta Mexíkó, sem hefur heitið því að berjast gegn glæpum í landinu. Hann tók við embætti í desember 2012 og setti sér það markmið að fækka morðum, sem höfðu aukist verulega undir stjórn forvera hans, Felipe Calderon.

Morðum fækkaði fyrstu tvö ár hans í embætti en síðan fór þeim fjölgandi. Forsetakosningar verða haldnar aftur á næsta ári.

Samkvæmt frétt Reuters hafa þessar tölur komið niður á forsetanum og flokki hans. Nieto má ekki bjóða sig fram aftur sjálfur. Andres Manuel Lopez Obrador, sem mælist með mest fylgi í skoðanakönnunum, hefur velt upp þeim möguleika að veita meðlimum glæpasamtöka náðun til að draga úr glæpum.



Sú hugmynd er þó ekki vinsæl meðal kjósenda.

Nieto skrifaði nýverið undir lög sem snúa að því að hvernig beita megi her landsins gegn glæpasamtökum. Lögin hafa verið gagnrýnd harðlega og óttast er að þau fjölgi mannréttindabrotum hersins í Mexíkó. Mannréttindasamtök og Sameinuðu þjóðirnar hafa sakað herinn um slík brot á undanförnum árum. Forsetinn hefur gert Hæstarétti Mexíkó að taka löginn til skoðunar og úrskurða um hvort þau brjóti gegn stjórnarskrá landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×