Erlent

Puigdemont vill snúa aftur til Katalóníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Carles Puigdemont er í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu.
Carles Puigdemont er í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu. Vísir/AFP
Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu, vill snúa aftur heim. Puigdemont, sem er í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu, hefur kallað eftir því að yfirvöld Spánar hleyptu honum aftur til Katalóníu áður en héraðsþingið kemur saman aftur eftir kosningar vikunnar, svo hann geti aftur sest í forsetastól.

Snúi Puigdemont aftur til Spánar gæti hann verið handtekinn og ákærður fyrir, meðal annars, landráð og misnotkun á opinberu fé.

Aðskilnaðarsinnar verða með nauman meirihluta á héraðsþinginu, nokkuð minni en á síðasta þingi, sem var leyst upp af spænska ríkinu með vísun í 155. grein stjórnarskrárinnar eftir að aðskilnaðarsinnar héldu kosningu í héraðinu um sjálfstæði frá Spáni. Spánarstjórn boðaði til nýju kosninganna.

„Ég vil snúa aftur til Katalóníu eins fljótt og auðið er. Ég vil snúa aftur núna strax. Það væru góðar fréttir fyrir Spán,“ sagði Puigdemont í samtali við blaðamann Reuters. „Ég er forseti héraðsstjórnarinnar og ég verð áfram forseti ef spænska ríkið virðir niðurstöður kosninganna.

Hann sagðist enn fremur vera tilbúinn til viðræðna við ríkisstjórn Mariano Rajoy. Jafnvel þó ríkisstjórnin væri ekki tilbúin til að bjóða íbúum Katalóníu sjálfstæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×