Enski boltinn

Snéri aftur eftir krabbamein í annað sinn á ferlinum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Joe Thompson í leik með Rochdale
Joe Thompson í leik með Rochdale vísir/getty
Hinn breski Joe Thompson snéri til baka á knattspyrnuvöllinn eftir krabbameinsmeðferð í vikunni, í annað skiptið á ferlinum.

28 ára gamli Thompson greindist með eitilfrumukrabbamein árið 2013, en vann bug á því ári seinna. Sjúkdómurinn lét svo aftur á sér bera fyrr á þessu ári.

Í júlí sagðist Thompson vera laus við krabbameinið og í vikunni var hann aftur mættur á völlinn fyrir félag sitt, Rochdale.

„Þetta hefur verið mikil vinna á bakvið luktar dyr, en ég er himinlifandi að vera kominn aftur á völlinn,“ sagði Thompson við BBC, en hann er uppalinn hjá Rochdale og hefur spilað yfir 100 leiki fyrir félagið.

„Í byrjun var mikið um stopp og í sex vikur fann ég enn fyrir aukaverkunum. Ég náði hægt og rólega að vinna mig aftur til baka með sjúkraþjálfaranum. Fyrst var spurningin „sjáum hvort þú getir gengið,“ og svo þaðan hvort ég gæti hjólað og hlaupið,“ sagði Joe Thompson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×