Erlent

Kærasti George Michael segir að hann muni aldrei elska neinn annan

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fjölmargir aðdáendur George Michael minntust hans þegar hann lést í fyrra með blómum, kortum og myndum.
Fjölmargir aðdáendur George Michael minntust hans þegar hann lést í fyrra með blómum, kortum og myndum. vísir/getty
Fadi Fawaz, kærasti söngvarans George Michael sem lést á jóladag í fyrra, segir að hann muni aldrei elska neinn annan. Söngvarinn var aðeins 53 ára þegar hann lést og var það Fawaz sem kom að honum látnum í rúminu á heimili Michael í Goring-on-Thames í Oxfordshire.

Fawaz og Michael voru búnir að vera saman í fimm ár þegar söngvarinn heimsþekkti lést. Fawaz ræddi við Sunday Mirror í aðdraganda þess að bráðum er liðið frá dauða Michael.

Í viðtalinu lýsir hann Michael sem einstakri manneskju.

„Ég missti einstakan mann og það verður aldrei neinn annar, það er sannleikurinn,“ segir Fawaz sem segir jólin nú vera erfið.

Þá hefur fjölskylda George Michael einnig sagt að jólin nú verði erfið án hans.

 

„Við vitum að við erum ekki ein í sorginni þegar við minnumst þess að ár er liðið frá dauða hans. Jólin eru ekki alltaf auðveld, lífið er ekki fullkomið og fjölskyldur eru flóknar. Svo ef þið getið, í minningu hans, tekið eitt augnablik, dregið djúpt andann og sagt ykkar nánustu að þið elskið þá,“ segir í yfirlýsingu fjölskyldunnar nú.

Krufning leiddi í ljós að banamein George Michael var hjartasjúkdómur og fita í lifrinni sem getur verið afleiðing af mikilli drykkju og neyslu eiturlyfja.

George Michael var listamannsnafn Georgios Kyriacos Panayiotou sem fæddist í Norður-London, 25. júní 1963. Hann seldi meira en 100 milljónir eintaka af plötum á tónlistarferli sem spannaði nærri fjörutíu ár.

Söngvarinn sló fyrst í gegn á níunda áratugnum með hljómsveitinni Wham! Eftir að sú sveit hætti hóf Michael farsælan sólóferil en fyrsta sólóplata hans, Faith, kom út árið 1987 og seldist hún í yfir 20 milljónum eintaka.

Í spilaranum hér fyrir neðan má heyra eitt vinsælasta jólalag allra tíma en það er einmitt með hljómsveitinni Wham! og heitir Last Christmas.


Tengdar fréttir

Þau kvöddu á árinu 2017

Fjölmargir þekktir einstaklingar úti í heimi kvöddu þennan heim á árinu sem senn er á enda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×