Erlent

Bíl ekið á höfuðstöðvar sósíaldemókrata í Þýskalandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Eldur kviknaði þegar bíllinn skall á byggingunni en úðarakerfi slökkti fljótt í honum.
Eldur kviknaði þegar bíllinn skall á byggingunni en úðarakerfi slökkti fljótt í honum. Vísir/AFP
Ökumaður ók bíl sínum á höfustöðvar Sósíaldemókratarflokksins í Berlín í Þýskalandi á aðfangadagskvöld. Bensínbrúsar og kveikjarabensín voru í bílnum og er málið rannsakað sem tilraun til íkveikju. Ökumaðurinn sagði lögreglu að hann hafi ætlað að stytta sér aldur.

Eldur kviknaði þegar bíllinn lenti á byggingunni en úðarakerfi hennar slökkti hratt í honum. Ökumaðurinn, sem er 58 ára gamall, er sagður hafa slasast lítillega. Atvikið átti sér stað um miðnætti að staðartíma, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Sósíaldemókrataflokkurinn starfaði í ríkisstjórn með kristilegum demókrötum Angelu Merkel kanslara frá 2013 en ákvað að binda enda á samstarfið eftir afhroð sem flokkurinn galt í kosningum í september.

Trauðlegar hefur hins vegar gengið að mynda ríkisstjórn og hafa sósíaldemókratar fallist á „opnar viðræður“ við Merkel og flokk hennar um áframhaldandi samstarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×