Enski boltinn

Conte: Reynsla er það mikilvægasta fyrir stjóra

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Antonio Conte á hliðarlínunni á Stamford Bridge
Antonio Conte á hliðarlínunni á Stamford Bridge vísir/getty
Antonio Conte segist ánægður að hann byrjaði þjálfaraferil sinn hjá litlu liði því reynsla sé mikilvægasta vopn í vopnabúri þjálfarans.

Conte tók við liði Chelsea í fyrra og varð Englandsmeistari með liðið á sínu fyrsta tímabili. Meistararnir eru í þriðja sæti deildarinnar, 16 stigum á eftir toppliði Manchester City.

„Leikmenn sem hafa átt frábæran feril halda að þeir geti orðið stjórar. En það er eitt að spila og annað að þjálfa, þetta eru mjög frábrugðin störf. Þú þarft réttu reynsluna til þess að ná árangri,“ sagði Conte, en menn eins og Pep Guardiola og Zinedine Zidane hafa verið að gera það mjög gott sem knattspyrnustjórar eftir að leikmannaferli þeirra lauk.

„Ég byrjaði á lægri hillu, og fékk minn skerf af vonbrigðum. Fyrsta stjorastarfið var hjá Arezzo í ítölsku 1. deildinni og ég var rekinn eftir níu leiki, en svo kallaður aftur inn undir lok tímabilsins. Þessi reynsla var mér mjög mikilvæg.“

„Þetta snýst um að reyna að koma þinni hugmyndafræði til leikmannanna. Það er mjög erfitt starf, en að sama skapi er frábært að sjá liðið framkvæma það sem þú leggur upp með,“ sagði Antonio Conte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×