Erlent

Fimmtán teknir af lífi í Egyptalandi

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Abdul Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, hefur ítrekað að mikilvægt sé að koma á friði á Sínaískaga.
Abdul Fattah al-Sisi, forseti Egyptalands, hefur ítrekað að mikilvægt sé að koma á friði á Sínaískaga. Vísir/AFP
Yfirvöld í Egyptalandi tóku fimmtán fanga af lífi í dag sem dæmdir voru fyrir árásir á öryggissveitir á Sínaískaga árið 2013. Mennirnir voru hengdir í tveimur fangelsum í norðurhluta landsins. BBC greinir frá.

Þetta er fyrsta fjöldaaftakan í Egyptalandi í tvö ár. Mönnunum var gert að sök að hafa drepið hermenn, skipulagt aftökur og eyðilagt bíla öryggissveita Egyptalands.

Uppreisnarmenn hafa tekist á við öryggissveitir egypskra yfirvalda í nokkur ár á Sínaískaga. Í nóvember síðastliðnum stóðu vígamenn sem tengjast Ríki íslams fyrir sprengjuárás á mosku á Sínaískaga sem kostaði um 250 manns lífið. Í síðustu viku sprengdu samtökin upp þyrlu sem staðsett var á flugvelli á skaganum. Sú árás kostaði einn hermann lífið en varnarmálaráðherra Egyptalands og innanríkisráðherra landsins voru í heimsókn á svæðinu þegar árásin var framkvæmd. Aðstoðarmaður varnarmálaráðherrans slasaðist en ráðherrana sakaði ekki.

Í nóvember fyrirskipaði forseti landsins, Abdul Fattah al-Sisi, hernum að koma friði á á svæðinu innan þriggja mánaða og gaf hernum leyfi til að beita sér á grimmilegan hátt til að ná því markmiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×