Sport

Þjálfari Cleveland ætlar að hoppa ofan í Erie-vatn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þetta verður kaldur sundsprettur hjá Jackson.
Þetta verður kaldur sundsprettur hjá Jackson. vísir/getty

Þó svo NFL-liðið Cleveland Browns geti nákvæmlega ekki neitt þá verður að gefa þjálfara liðsins, Hue Jackson, það að hann stendur við stóru orðin.

Á síðustu leiktíð vann Cleveland aðeins einn leik en tapaði fimmtán. Þá sagði Jackson að ef liðið myndi aftur enda 1-15 þá ætlaði hann að hoppa út í Erie-vatn sem er asskoti kalt. Ekki síst á þessum árstíma.

Cleveland hefur tapaði öllum fimmtán leikjum sínum á tímabilinu og getur því besta falli jafnað sinn ömurlega árangur frá því í fyrra. Ef liðið tapar gegn Pittsburgh um helgina þá gæti Jackson tæknilega sloppið við að standa við stóru orðin en það mun hann ekki gera.

„Hver ætlar að hoppa út í vatnið með mér?“ var það fyrsta sem Jackson sagði við blaðamenn á fundi í gær.

„Ég lofaði þessu og verð að standa við það. Þetta er ekkert flókið. Maður hoppar bara ofan í. Vonandi mætir fullt af fólki að horfa á og við gerum þetta að skemmtilegum viðburði. Ég er ekki hrifinn af því að þurfa að gera þetta og ástæðan er ekki góð. Ég verð samt að standa við það sem ég segi.“

Þarna er loksins kominn viðburður sem getur skemmt stuðningsmönnum Browns en ætla má að þetta verði síðasta verk Jackson hjá félaginu.

NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.