Innlent

Hið fínasta árámótaveður í kortunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Á miðnætti á gamlárskvöld er spáin fyrir höfuðborgarsvæðið austan fjórir metrar á sekúndu, léttskýjað og fjögurra til fimm stiga frost.
Á miðnætti á gamlárskvöld er spáin fyrir höfuðborgarsvæðið austan fjórir metrar á sekúndu, léttskýjað og fjögurra til fimm stiga frost. Vísir/Anton
Veðrið um áramótin verður hið fínasta hér á höfuðborgarsvæðinu og hvergi á landinu ætti veður að hamla hátíðarhöldum. Samkvæmt nýjustu spám Veðurstofunnar er búist við um fimm stiga frosti og hægum vindi.

„Þetta er eiginlega hið allra besta veður. Nógu lítið til að það verða engin vandræði að kveikja í brennum en nógu mikið til að hreinsa reykinn. Þetta gæti varla orðið betra. Það er allavega líklegasta staðan núna,“ segir Teitur Arason, vaktaveðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.

Hann segir Ísland sitja í köldum loftmassa og að lítið sé að gerast í veðrinu þessa dagana. Útlitið sé þannig út árið. Einhver snjókoma gæti orðið á næstu dögum og eru mestar líkur á henni á austurlandi.

Á miðnætti á gamlárskvöld er spáin fyrir höfuðborgarsvæðið austan fjórir metrar á sekúndu, léttskýjað og fjögurra til fimm stiga frost. Teitur segir að veður annars staðar á landinu ætti ekki að hamla hátíðarhöldum þó vindur verði kannski aðeins ákveðnari. Hann ætti ekki að fara yfir tíu metra á sekúndu. Sömuleiðis ætti él að vera smáræði.

Frekari upplýsingar má finna á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×