Innlent

Hátíðarrökstólar: Rapp, byltingar og pólitík

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Lára, Kolfinna, Brynjar og Grímur ræddu það sem hæst bar á árinu.
Lára, Kolfinna, Brynjar og Grímur ræddu það sem hæst bar á árinu. Anton Brink
Árið hefur verið annasamt og viðburðaríkt hjá þeim fjórum sem setjast á rökstóla á Kaffi París einn morgun rétt fyrir áramót. Grímur Grímsson stýrði einni umfangsmestu morðrannsókn sem hefur komið upp í íslensku samfélagi. Lára Guðrún Jóhönnudóttir var greind með brjóstakrabbamein snemma á árinu og fór í brjóstnám í mars. Hún vakti athygli á aðstæðum krabbameinssjúkra í sumar og vill byltingu í þjónustu til þeirra.

Brynjar Níelsson var í hringiðu stjórnmálanna, kosningar eru afstaðnar og þingstörf hafin. Kolfinna Nikulásdóttir, listamaður og Reykjavíkurdóttir, hefur einnig átt viðburðaríkt ár. Hún útskrifaðist úr námi, sinnir rúmlega ársgamalli dóttur, leikstýrði leikverki og gaf nýverið út nýtt lag með Reykjavíkurdætrum, Hvað er málið?

Kolfinna er örlítið sein fyrir. „Ég þurfti að berja bílinn í gang,“ segir hún og sest niður og þiggur fegin kaffisopa.

Hafið þið hist áður? Þekkið til hvert annars?

Grímur: Ég hef hitt Brynjar áður.

Brynjar: Já, við höfum þekkst í 35 ár. Við hittumst fyrst í háskólanum. Svo var ég lögmaður og hann í löggunni. Við vorum því alltaf að rífast.

Grímur: Ég er nú ekkert að rífast. Það er nú gaman að pólitískum töffurum eins og Brynjari.

Lára: Brynjar, ég hef bara rifist við þig í gegnum sjónvarpið.

Brynjar: Skammast í mér örugglega.

Lára Guðrún: Já, hvort ég hef. Það er auðvelt að rífast við sjónvarpið. En svo erum við nú bara öll manneskjur.

Brynjar: Ég var nú einu sinni spurður hvort ég væri mennskur.

Kolfinna: Er það? Ég líka! Ég svaraði bara: Ég veit það ekki.

Lára: Grímur, ég velti því líka fyrir mér hvort þú værir mennskur í byrjun árs þegar þú varst eiginlega vakandi allan sólarhringinn.

Grímur: Það var mest í kringum það þegar við vorum að taka skipin. Kapítuli út af fyrir sig. Þá vildi maður vera til staðar allan tímann.

Haldið þið að það sé komið góðæri á Íslandi?

Grímur: Það var haft eftir starfsmanni ríkisskattstjóra að við værum komin með hærri tekjur en 2007.

Kolfinna, en nú varst þú að berja bílinn þinn í gang áðan. Finnur þú fyrir góðærinu?

Kolfinna: Það er meira svona gjörningur. Ég er á Suzuki Sidekick, amerískri týpu, fæddri 1995. Mjög lítið keyrð, á undan mér var bara einn eigandi, sem keyrði bara í hringi á Selfossi. Kostaði bara hundrað þúsund kall. Ég er mikill Súkkuáhugamaður. Ég lenti í tveimur árekstrum í gær á sama klukkutímanum. Það var bakkað á mig og ég keyrði aftan á bíl. Það sér ekki á Súkkunni. En vel á hinum bílunum. Súkkur eru óstöðvandi og komast allt. Það var Benz sem ég klessti á, Súkkan braut hann. Ég held að þetta svari spurningunni um góðæri. Þetta er huglægt.

Lára: Það er góðæri hjá Þjóðkirkjunni. Það er ekki góðæri í innviðum spítalans. Spítalinn er núna kannski á réttri leið fyrir starfsfólkið þar, vonandi verður hann seinna líka góður fyrir sjúklinga. Kannski lærum við einn daginn að gera bæði. Ég finn lykt af þessu góðæri í kringum mig. En hvað er góðæri eiginlega? Þér líður vel, ísskápurinn er fullur af mat. Ég gat borgað fyrir lyfin mín í gær þannig að ég er bara sátt.

Kolfinna: Er góðæri bara hærri laun?

Grímur: Er það ekki að eiga fyrir reikningunum og aðeins meira en það?

Kolfinna: Er það ekki andlegt líka? Snýst þetta ekki svolítið um það hvernig við högum okkur?

Lára: Eins og í maníu, það verður svolítil sturlun.

Kolfinna: Jú, við erum að gera, græja og kaupa.





Grímur Grímsson
Lára: Vonum að það verði betra andlegt góðæri á næsta ári. Að við verðum í innri vellystingum.

Brynjar:  Það er góðæri núna í sögulegum samanburði. Núna hefur þjóðin það betra í efnahagslegu tilliti en nokkru sinni áður. En það þýðir ekki að okkur líði betur.

Kolfinna: En það er ekki hlutverk stjórnmálamanna, er það?

Brynjar: Nei, hver er sinnar gæfu smiður.

Grímur: En er þarfapíramídi Maslows ekki þannig að eftir að maður er búinn að sinna frumhvötunum þá getur maður sinnt öðrum þörfum og gefst þá tækifæri til að líða betur andlega?

Lára: Já, þannig að auðvitað geta stjórnmálamenn hjálpað fólki að líða betur.

Grímur: Að minnsta kosti geta þeir komið fólki á þann stað að það fær til þess tækifæri. Jafnað gæðunum niður.

Brynjar: Við erum alltaf að því sko. Þess vegna höfum við bótakerfi. Við erum alltaf að jafna gæðunum niður, svo getum við deilt um það hvort það er jafnað of mikið. En ég er ekki viss um að vellíðan hafi eitthvað með þetta allt að gera. Kannski áhrifavaldur. En svo er bara spurningin hvort fjölskyldan sé veikara form en áður, hvort það sé ástæðan fyrir því að okkur líður verr. Eru geðraskanir algengari en áður? Eða er fólk bara að tala meira um það?

Grímur, hvað finnst þér hafa staðið upp úr á árinu?

Grímur: Mér finnst það hafa verið mál sem varða uppreist æru og svo það sem fylgdi í kjölfarið, #meetoo byltingin. Mér finnast þetta hafa verið áberandi mál í fjölmiðlum og samfélaginu öllu. Svo þegar ég lít mér nær, þá voru á Íslandi fjögur manndráp á árinu. Það er töluvert yfir meðaltalinu, sem er dapurlegt. Mér finnst að á árinu höfum við talað um óþægilega hluti og það hafi oft verið erfitt.

Lára: Það er rétt. En það á held ég að vera erfitt.

Grímur: Karl á mínum aldri. Manni finnst svolítið að sér vegið. Manni er líka sagt að maður eigi ekki að taka því svoleiðis en maður gerir það samt. Við höfum líka tilfinningar.

Lára: Tilfinningabyltingin er á næsta leiti.

Kolfinna: #fyrirgefðu byltingin. Ég er að bíða eftir henni.

Lára: Þeir karlmenn sem eiga erfitt með þetta, það er eðlilegt. Það þarf að ganga langt í þessu til að ná árangri. Byltingar einkennast af öfgum.

Erum við í öfgum núna?



Lára: Já, vonandi.

Brynjar: Já, það er rétt, allar byltingar eru öfgakenndar að einhverju leyti. Svo jafnast hlutirnir, það er reyndar ekkert á vísan að róa með það.

Lára: Ef karlmenn eru eitthvað óvissir um hvernig þeir eiga að vera, þá er það svolítið þú-vandamál. Ekki ég-vandamál. Fólk þarf bara að bera virðingu og nota svolítið innsæið.

Grímur: Þetta er áhugaverð hugmynd. Við getum átt í samskiptum og ég gæti sagt eitthvað sem er ekki velkomið hjá þér.

Brynjar: Það er óvelkomið að þú hafir aðra skoðun jafnvel.

Grímur: Nei, alls ekki. Þetta er gagnvart öðrum einstaklingi. það er ekkert endilega víst að ung kona sé sátt við það að ég sé að hrósa henni. Þá verð ég að taka tillit til þess.

Lára: Og þá gæti ég líka sagt: Mér finnst þetta óþægilegt.

Grímur: Flestum finnst óþægilegt þegar það er sett ofan í við þá. Þá verða samskiptin ekki aftur eins á milli einstaklinga. En það er þá alltaf á ábyrgð þess sem fer yfir mörkin.

Kolfinna: Ég starfa í Borgarleikhúsinu og þar var #metoo byltingin áberandi. Borgarleikhússtjóri var hugrökk og stóð sig vel. Margir hafa byrgt inni reynslu sína í mörg ár. Auðvitað verður þá mikil sprenging þegar þetta brýst allt saman út. Það sem hefur komið í ljós er mikil skekkja í samskiptum kynjanna. Næst er að hugleiða: Hvað erum við öll að gera vitlaust? Mér finnst ekki nóg að segja að karlmenn þurfi bara að taka ábyrgð. Við þurfum öll að taka ábyrgð. Til dæmis á samstöðu kvenna. Menning kvenna á Íslandi er mjög grunn. Það vantar raunverulega samstöðu. Konur finna ekki fyrir samstöðu í vinnu. Þær finna fyrir samkeppni og vantrausti. Þær finna ekki fyrir andlegri samkynhneigð eins og karlar gera.



Kolfinna Nikulásdóttir.
Brynjar: Erum við andlega samkynhneigðir, við Grímur?

En sko, þó að þessi bylting sé að hluta til ofstækisleg þá er kosturinn við hana að menn setjast niður og hugsa um mannleg samskipti. Öll. Ekki bara þau sem eru með kynferðislegum undirtón. Ég hef líka leitt hugann að því hvort við séum agalaus þjóð. Erum við að kenna börnunum okkar kurteisi?

Þurfum við ekki að bæta samskipti okkar almennt? Ekki að við megum ekki deila og takast á, það er hvernig við gerum það. Það finnst mér þessi bylting líka hafa fengið mig til að hugsa um. Ef ég segi: Mér finnst þú bara ótrúlega myndarleg kona. Og þú segir: Mér finnst þetta óþægilegt. Þá er það bara búið. Nema að ég haldi áfram. Áreitni er ítrekuð háttsemi, felst í orðinu. Þess vegna segi ég líka, við megum ekki vera of viðkvæm fyrir öllu sem við okkur er sagt.

Kolfinna: Ég held að ástæðan fyrir því að #metoo byltingin er svo kraftmikil sé að konur hafa ekki getað tjáð sig. Þegar þú ert búin að byrgja eitthvað inni lengi, þá þarftu að öskra. Svo smám saman verður auðveldara að tjá sig. Það verður ekki jafn ofsafengið. Þá hættir þetta að vera svona rosalegt gos.

Svo þetta með mörkin. Það þarf að vísa veginn. En það er nýtilkomið hjá mér að finnast það. Ég hef nefnilega oft sagt: Mér finnst þetta nú meiri vællinn. Hvað með það að það sé káfað á manni, þá fer maður bara til þerapista. Nenni ekki að vera að hlusta á þetta. Svona var ég mjög oft mjög mikil karlremba.

Ég lendi nefnilega ekki í þessu. Ég læt engan taka fram í fyrir mér, tek mitt pláss, hef hátt. Það káfar enginn á mér.

Brynjar: Það þorir það enginn líklega. Þú setur mörk.

Kolfinna: Nei, það þorir það enginn. Það þorir heldur enginn að bjóða mér á deit. Mér finnst það mjög leiðinlegt. Mér finnst gaman að vera í sólarlöndum þar sem það er flautað á eftir mér. En svo verð ég að temja mér samkennd. Það eru ekki allir með sömu persónugerð og ég. Við þurfum að hugsa um hvert annað.

Grímur: Þetta sem þú sagðir, Brynjar, með að setja mörk. Það getur samt ekki alltaf verið þannig að samskiptin eigi alltaf að vera þannig að það þarf alltaf að setja einhverjum mörk. Menn hljóta í raun að átta sig á því hvar mörkin liggja?

Brynjar: Það er breytilegt eftir því á hvaða tíma maður lifir.



Grímur: Við eigum að vera skynsöm.



Brynjar, hvað finnst þér standa upp úr á árinu?

Brynjar: Þetta er ekki ár stjórnmálamanna.

Kolfinna: Ert þú stjórnmálamaður?

Brynjar: Já.

Kolfinna: Í flokki? Ertu á þingi?

Brynjar: Já.

Lára: Þú hefur þá ekki rifist við hann í gegnum sjónvarpið?

Kolfinna: Nei, alls ekki, ég á ekki sjónvarp og er mikið í útlöndum.

Brynjar: Þá tekurðu ekki þátt í samfélaginu. En stjórnmálaklúðrið á þessu ári. Slit ríkisstjórnarinnar í september, hvernig það gerðist er sennilega versta pólitíska klúðrið í manna minnum. Og sýnir veikleika stjórnmálanna.

Stjörnur þessa árs finnst mér vera íþróttafólkið. Að ná að komast á HM er ótrúlegt afrek í sjálfu sér. Svo er ég sérstaklega hrifinn af árangri Ólafíu Þórunnar, að komast á þennan stall. Í heimsklassa. Meiriháttar mál. Stjörnur ársins, fyrir utan Grím, er íþróttafólk landsins.



Kolfinna:
 Hjá hvaða flokki ertu?



Brynjar:
 Ég er Sjálfstæðismaður og íhaldsmaður.



Kolfinna:
 Vá, ertu ráðherra?



Brynjar:
 Ég er þingmaður í þessu húsi þarna úti. Ég verð ekki ráðherra. Það þorir það enginn að gera mig að ráðherra.



Grímur:
 Albert Guðmundsson var ráðherra.



Brynjar:
 Já, með hótunum.



Kolfinna:
 Ég er búin að vera mikið úti. Ég er kannski ekki með allt á hreinu sem var að gerast á Íslandi. En ég veit hvað var að gerast í Katalóníu. Við vorum annars að gefa út lag.

Brynjar Níelsson.
Brynjar: Já, þú ert Reykjavíkurdóttir, ég veit það. Þið eruð svolítið klámfengnar.

Kolfinna: Nei, ha? Klámfengnar? Klámsjúkar?

Brynjar: Klámfíklar kannski. Þið eruð svolítið á kynferðislegum nótum.

Kolfinna: Þú hlustar þá ekkert á rapp.

Brynjar: Ég heyrði brot af þessu rappi ykkar fyrir meira en ári síðan hjá Gísla Marteini.

Kolfinna: Var það þegar við sungum: Sjúgðu á mér snípinn tík?

Brynjar: Það myndi einhver segja að þetta væri af kynferðislegum toga.

Kolfinna: Já, þetta er mjög stórt í rappi.

Brynjar: Þetta særði ekki mína blygðunartilfinningu en sjálfsagt einhverra annarra gamalla karla.

Kolfinna: Já, en þá verða þessir gömlu karlar að skilja að þetta er svar við endalausu typpatali.

Brynjar: Karlar hafa örugglega meira gaman af því þessu en typpatali. Ég veit ekkert um rapp.

Kolfinna: Og ég veit ekkert um pólitík en Erpur Eyvindarson girti niður um sig á Íslensku tónlistarverðlaununum um aldamótin. Hann söng: Bitch viltu dick. En svo syngjum við sjúgðu á mér snípinn og fólk gengur út og Brynjar Níelsson húðskammar Kylfuna.

Brynjar: Nei, nei. Ég vil ekki skamma þig og þetta finnst mér ekki viðkvæmt heldur bara fínt. Ég var bara að setja mig í spor einhverra annarra hugsanlega.



Lára Guðrún Jóhönnudóttir
Grímur: Það er nýtt að konur séu að taka upp þennan hanska. Í rappi, vera með svona texta. Jafna þetta út, þessa texta sem karlar hafa verið með. Þetta er pólitík. Það er gaman að fylgjast með því þegar fólk ýtir á mörk, gerir tilraunir með þau.

Kolfinna: Nákvæmlega, við höfum alltaf gert okkar tilraunir opinberlega. Og viðbrögðin oft mikil.

Það er auðvitað erfitt fyrir Láru Guðrúnu að svara því hvað stóð upp úr á árinu. Hún hóf nýlega andhormónameðferð til að varna því að krabbameinið taki sig upp aftur. Meðferðin mun vara í nokkur ár.

Lára: Það er auðvitað svolítið persónulegt fyrir mig að svara því hvað stóð upp úr á árinu. En auðvitað var það samt þessi réttláta reiði sem kviknaði í mér við það að fara í gegnum fen heilbrigðiskerfis og greiðsluþátttöku. Sjá hvernig peningar leka út úr kerfinu og ekki til notenda þess. Útlagður kostnaður sem hleypur á milljónum bara við það að missa eitt brjóst. Og þurfa að borga fúlgur fjár fyrir möguleikann á því að stofna fjölskyldu í framtíðinni. Heilbrigðismálin voru í forgrunni í kosningabaráttunni.

Gott að við erum sammála um það. Brynjar talaði um það að stjórnmálamenn væru með allt niður um sig. Þá verð ég að spyrja: Er þetta að virka? Eftir þetta ár þurfum við svolítið að endurmeta hlutina. Stjórnmálin ættu að lagast að okkur, ekki við að þeim.

Brynjar: Það sem ég óttast er að það sé að losna um stofnanir samfélagsins. Ég vona að það verði meiri festa í stjórnmálum en hefur verið upp á síðkastið.

Kolfinna: Mér finnst þetta mjög góður punktur. Reyndar er ég á móti lýðræði, þessu auglýsingalýðræði. Það virkar ekki, tökum upp menntað einræði.

Lára: Ég held þvert á móti að við þurfum að þvinga okkur til að setja okkur í spor annarra. Hei! Og gefa stefnuljós. Ekki gleyma því, gott fólk, á nýju ári að gefa stefnuljós.

Grímur: Ég get ekki annað en tekið undir það!




Fleiri fréttir

Sjá meira


×