Enski boltinn

Klopp þreyttur á orðrómunum

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Klopp á hliðarlínunni.
Klopp á hliðarlínunni. Vísir / Getty
Jurgen Klopp, þjálfari Liverpool, er orðinn þreyttur á orðrómum um mögulega brottför Philippe Coutinho frá félaginu.

Barcelona bauð oftar en einu sinni í brasilíumanninn knáa síðastliðið sumar og hyggst katalónska stórveldið gera slíkt hið sama þegar að félagsskiptaglugginn opnar á ný í janúar ef marka má fréttir spænskra fjölmiðla.

Á blaðamannafundi fyrir grannaslaginn gegn Everton hvatti hann Coutinho sem og hina sóknarmenn Liverpool, Sadio Mane, Mohamad Salah og Roberto Firmino til að vera nokkur ár til viðbótar í Liverpool. Undir hans stjórn geti þeir hámarkað hæfileika sína.

Hafa þeir skorað samanlagt 25 mörk í öllum keppnum á þessu tímabili og skal því engan undra að Klopp vilji halda þeim á Anfield um ókomna tíð.

„Það mun ekkert stoppa þessa orðróma en ég hef ekkert að segja um þá. Það mun ekki breytast. Ég er nokkuð viss um að leikmennirnir vita hvernig leikur þeirra getur haldið áfram að þróast undir minni stjórn. Þeir vita líka hvert mikilvægi þeirra fyrir félagið er. Það er ekki eins og ég þurfi að koma með dæmi og benda á það hvað ég hef gert fyrir feril annarra leikmanna. Árangur minn sem þjálfari segir allt sem segja þarf.“

Klopp tjáði sig einnig um nýjan þjálfara Everton, Sam Allardyce, og þá hættu sem stafar af aukaspyrnum Gylfa Þórs Sigurðssonar.

„Við höfum sýnt á þessu tímabili að við getum spilað vel gegn liðum sem verjast aftarlega á vellinum. Það kemur okkur ekki á óvart lengur þegar að lið beita þessari taktík gegn okkur. Við vitum að það verður leikplan Everton á morgun. Þá verðum við að passa okkur að brjóta ekki á leikmönnum Everton á hættulegum stöðum. Aukaspyrnur Gylfa eru hættulegar og ef við höfum ekki varann á getum við fengið á okkur mark eftir eina slíka.“

Grannaslagur Liverpool og Everton er að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og byrjar útsendingin kl 14:05.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×