Enski boltinn

Upphitun: City-menn geta bætt met í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Manchester City getur sett met þegar liðið mætir botnliði Swansea City á útivelli í 17. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Strákarnir hans Peps Guardiola hafa unnið 14 leiki í röð og með sigri í kvöld bæta þeir met Arsenal frá 2002 yfir flesta sigurleiki í efstu deild á Englandi í röð.

City er miklu sigurstranglegri en liðið hefur unnið níu af 12 leikjum sínum gegn Swansea í ensku úrvalsdeildinni.

Liðið í 2. sæti, Manchester United, fær Bournemouth í heimsókn. Romelu Lukaku, sem hefur verið ískaldur að undanförnu, hefur skorað fimm mörk í síðustu fjórum leikjum sínum gegn Bournemouth.

Liverpool tekur á móti kaldasta liði deildarinnar, West Brom, sem hefur ekki unnið í 14 leikjum í röð og gæti setið í fallsæti eftir umferðina.

West Ham, sem vann frábæran sigur á Chelsea í síðustu umferð, tekur á móti Arsenal í Lundúnaslag.

Sam Allardyce, knattspyrnustjóri Everton, mætir með sína menn á St. James' Park þar sem þeir etja kappi við Newcastle United. Everton hefur unnið sex af síðustu sjö leikjum sínum gegn Newcastle. Gylfi Þór Sigurðsson verður væntanlega á sínum stað í byrjunarliði Everton.

Tottenham fær Brighton í heimsókn. Spurs rústaði Stoke City í síðustu umferð á meðan Brighton tapaði fyrir Huddersfield í nýliðaslag.

Þá fer Claude Puel með sína menn í Leicester City á St. Mary's völlinn þar sem þeir mæta Southampton, sem Puel stýrði á síðasta tímabili.

Leikir dagsins:

19:45 Swansea - Man City

19:45 Newcastle - Everton

19:45 Southampton - Leicester

20:00 Liverpool - West Brom (beint á Stöð 2 Sport)

20:00 Man Utd - Bournemouth (beint á Stöð 2 Sport 2)

20:00 West Ham - Arsenal (beint á Stöð 2 Sport 3)

20:00 Tottenham - Brighton




Fleiri fréttir

Sjá meira


×