Innlent

Varað við hreindýrum á Austurlandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er betra að hafa augun opin þegar ekið er um Austurland í dag.
Það er betra að hafa augun opin þegar ekið er um Austurland í dag. VÍSIR/VILHELM
Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi. Það eru þó ekki aðeins hreindýr sem ökumenn ættu að varast í dag því að víða á landinu er hálka og hálkublettir sem ferðalangar ættu að hafa í huga.

Þannig er hálka á flestum vegum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Flughált er á Steingrímsfjarðarheiði og þæfingur á Þröskuldum. Ófært er yfir Dynjandis- og Hrafnseyrarheiði.

Á Suður- og Suðvesturlandi er einnig víðast hvar hálka og hálkublettir.

Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum á Norðurlandi og éljagang er í Eyjafirði. Flughálka er í Langadal og Vatnsskarði eins er flughálka í Norðurárdal. Hálka eða hálkublettir eru á flestum leiðum á Austurlandi. Með suð-austurströndinni er allvíða hálka eða hálkublettir á vegum. Ófært um Öxi og Breiðdalsheiði.

Þá eru vegir á hálendinu flestir ófærir enda engin þjónusta á þeim á þessum árstíma. Allur akstur er bannaður á vegi 864 fyrir austan Jökulsá á Fjöllum vegna skemmda í veginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×