Bílar

Legóþraut í inntökuprófi nemenda hjá BL

Finnur Thorlacius skrifar
Legoþrautin útskýrð fyrir verðandi bifvélavirkjum.
Legoþrautin útskýrð fyrir verðandi bifvélavirkjum.
Nýlega þreyttu ellefu áhugasamir verðandi bifvélavirkjar, sem nú stunda iðnnám í Borgarholtsskóla og sótt hafa um starfsnám hjá BL, inntökupróf hjá fyrirtækinu. Prófið var í formi skemmtilegrar en krefjandi Legoþrautar þar sem nemendur þurftu að leysa ýmis sérhönnuð verkefni fyrir bifvélavirkja.

Verkefnið var sett saman fyrir BL með aðstoð Legosérfræðings þar sem markmiðið var að sýna nemendum fram á nauðsyn þess að hugur og hönd vinni sem best saman við lausn flókinna viðfangsefna. Fjórum nemendanna hefur þegar verið boðinn starfssamningur hjá fyrirtækinu.

BL heldur árlega fjórar starfskynningar fyrir nemendur grunnskólanna í Reykjavík í samráði við Tómstunda- og frístundasvið Reykjavíkurborgar. Hlutverk kynninganna er að kynna nemendum annars vegar þá miklu breytingu sem starfsumhverfið hefur tekið samfara þeirri tæknibyltingu sem orðið hefur í greininni og hins vegar þá möguleika sem BL getur boðið verðandi bifvélavirkjum, bílasmiðum og bílamálurum með spennandi starfsnámi hjá fyrirtækinu. BL hefur langa reynslu á þessu sviði og býður árlega allt að tíu nemendum vinnustaðarsamning og á þessu ári einnig í fyrsta sinn fjárhagsstuðning meðan á samningnum stendur.

Fyrir nemendur sem fá samning hjá BL greiðir fyrirtækið skólagjöld auk þess sem þeir ganga að vísu sumarstafi hjá BL. Á námstímanum úthlutar BL nemendum meistara í viðkomandi iðngrein sem sinnir reglulegum samskiptum við þá, foreldra þeirra eða kennara eftir atvikum og undirbýr þá að lokum undir töku sveinsprófsins. Iðnú útvegar nemendunum öll námsgögn þeim að kostnaðarlausu. Í febrúar verður næsta grunnskólakynning haldin hjá BL og haustið 2018 fer næsta inntökupróf fram fyrir nemendur í bílgreinum í Borgarholtsskóla sem sótt hafa um námssamning hjá BL. Sjá má lítið myndskeið hér að neðan um þetta skemmtilega framtak BL og Borgarholtsskóla.

Unnið að lausninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×