Lífið

Stage Dive Fest haldið í sjötta sinn í kvöld

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Lord Pusswhip er einn af skipuleggjendum og tekur jafnframt lagið.
Lord Pusswhip er einn af skipuleggjendum og tekur jafnframt lagið.
Tónleikaröðin Stage Dive Fest verður haldin í kvöld í sjötta sinn. Tilgangur þessarar tónleikaraðar er að styðja unga tónlistarmenn í neðanjarðarsenunni í Reykjavík, aðallega í rapp- og raftónlist, þó að það sé ekki endilega nein krafa.

Fram koma Lord Pusswhip, en hann er einn aðstandenda hátíðarinnar og er nýlentur á Leifsstöð með alla búslóðina þegar þessi orð eru skrifuð en hann er að flytja aftur til landsins frá Berlín, sveitin Geisha Cartel og Krabba Mane. Í byrjun kvölds og á milli atriða þeytir hið dularfulla DJ-tvíeyki Domina­tricks gríðarlega sjaldgæfum skífum en þetta tvíeyki skipa þær Alpha Female og Hexía de Mix.

Ásamt Lord Pusswhip er það Mælginn og Bngrboy sem sjá um þessi kvöld. Í þetta sinn verður breytt eilítið til og verða leikar haldnir á Prikinu, en þessi hátíðahöld hafa yfirleitt farið fram á Húrra. Einnig verður frítt inn og er það vegna þess að jólin eru að ganga í garð og um er að ræða sérstaka jólaútgáfu af Stage Dive Fest. Sælla er að gefa en þiggja og allt það.

Meðal þeirra sem áður hafa komið fram á Stage Dive Fest eru rapparinn Mælginn, unglingarnir Smjörvi x HRNNR, stóru strákarnir í Geimfarar, villimaðurinn 101 Savage, Birnir þegar hann var ekki orðinn frægur, hinn elektróníski Kuldaboli, Countess Malaise og hinn dimmi og drungalegi Andsetinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×