Umfjöllun og viðtöl: Höttur - Þór Þ. 71-80 | Dýrmæt stig Þórs á Egilsstöðum

Gunnar Gunnarsson skrifar
vísir/anton
Þór Þorlákshöfn komst upp úr fallsætinu í Domino‘s deild karla í körfuknattleik með 71-80 sigri á botnliði Hattar á Egilsstöðum. Þór vann leikinn með frábærri vörn í síðasta leikhlutanum.

Segja má að leikurinn hafi verið hnífjafn þar til í lokin, eftir fyrsta leikhluta var staðan 18-20, í hálfleik 33-34 og 56-57 að loknum þriðja leikhluta. Höttur leiddi lengi í fyrsta leikhluta en Þór náði forskotinu og var alltaf skrefinu að undan. Bæði lið spiluðu fínan varnarleik og nokkuð agaðan sóknarleik. Leikurinn varð því fremur hægur og stigaskorið ekkert sérstaklega hátt.

Eftir því sem leið á leikinn virtist Þór ná betri tökum á leiknum og það var einkum að þakka afar góðum varnarleik. Fyrri helming fjórða leikhluta skoraði Höttur til dæmis aðeins tvö stig. Á meðan setti DJ Balentine mikilvægar þriggja stiga körfur. Þannig byggði Þór upp tíu stiga forskot. Slíkur munur var einnig þegar langt var liðið á þriðja leikhluta. Þá tók Höttur leikhlé og skoraði þrjár þriggja stiga körfur í röð og náði að jafna. Það endurtók sig hins vegar ekki í lokin.

Balentine átti afar góðan leik fyrir Þór í kvöld, skoraði 34 stig, þar af 7 þriggja stiga körfur. Emil Karel Einarsson átti einnig góðan leik fyrir Þór með 23 stig. Hjá Hetti varð Kevlin Lewis stigahæstur með 22 stig.

Af hverju vann Þór?

Þéttur og ákafur varnarleikur, um tíma í fjórða leikhluta voru bakverðir Hattar í vandræðum með að bera boltann fram yfir miðju. Óli Ragnar Alexandersson spilaði frábæra vörn á móti þeim enda stal hann fimm boltum í kvöld. Sókn liðsins var öguð og DJ Balentine setti niður skotin þegar mest þurfti á því að halda.

Hverjir stóðu upp úr?

DJ Balentine og Emil Karel leiddu sóknina hjá Þór. Körfurnar þeirra urðu til þess að Þór náði alltaf tökum á leiknum aftur um leið og Höttur komst nálægt. Óli Ragnar verðskuldar einnig hrós fyrir frábæran varnarleik. Kelvin Lewis átti ágætan dag hjá Hetti, einkum í vörninni enda tók hann 16 fráköst.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikurinn almennt gengið illa hjá Hetti í vetur og hann fór í baklás í fjórða leikhluta. Tvö stig á fyrstu fimm mínútunum færðu Þór leikinn. Hann var hins vegar agaðri en oft áður sem er skref í rétta átt.

Hvað gerist næst?

Haustið hefur verið erfitt hjá Þór en eftir tvo sigra í röð á móti liðum sem eru að berjast í neðri hlutanum er liðið loksins komið upp úr fallsæti. Næst á dagskrá er eitt liðið enn í botnbaráttunni, Þór frá Akureyri í Þorlákshöfn.

Höttur er rígnegldur við botninn og tapið þýðir að liðin fyrir ofan fjarlægjast heldur. Næstu leikur er gegn Íslandsmeisturum KR á heimavelli.



Höttur-Þór Þ. 71-80 (18-20, 17-16, 19-21, 17-23)

Höttur: Kevin Michaud Lewis 22/16 fráköst, Mirko Stefan Virijevic 15/8 fráköst, Andrée Fares Michelsson 12, Brynjar Snær Grétarsson 6, Bergþór Ægir Ríkharðsson 6/6 fráköst, Sigmar Hákonarson 5, Gísli Þórarinn Hallsson 3, Hreinn Gunnar Birgisson 2, Sturla Elvarsson 0, Ragnar Gerald Albertsson 0, Atli Geir Sverrisson 0, Nökkvi Jarl Óskarsson 0.

Þór Þ.: DJ Balentine II 34/7 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 23/4 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 8/9 fráköst, Magnús Breki Þórðason 5, Davíð Arnar Ágústsson 4, Ólafur Helgi Jónsson 4/6 fráköst, Óli Ragnar Alexandersson 2/6 fráköst/6 stoðsendingar/5 stolnir, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 0, Styrmir Snær Þrastarson 0, Benjamín Þorri Benjamínsson 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0.

 

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórsaravísir/ernir
Einar Árni: Fannst Óli Ragnar stela senunni

Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs Þorlákshöfn, hrósaði bakverðinum Óla Ragnari Alexanderssyni fyrir frábæra frammistöðu í vörninni í sigrinum á Hetti í kvöld. Óli Ragnar virtist ekki ætla að leyfa bakvörðum Hattar að komast fram yfir miðju á tímabili, stal alls fimm boltum, átti sex stoðsendingar og náði sex fráköstum.

„Mér fannst hann stela sendunni. Hann setti ákveðinn tón í varnarleiknum með pressu sinni sem aðrir fylgdu á eftir á lokakaflanum. Hann er hörku varnarmaður, kvikur og líkamlega sterkur. Mér fannst hann stjórna þessu frábærlega en við náðum líka vel saman sem lið. Fyrir utan tvær mínútur í þriðja leikhluta fannst mér vörnin hjá okkur mjög góð.“

Hinu megin á vellinum voru það DJ Balentine og Emil Karel Einarsson sem drógu vagninn með þriggja stiga skotum. Það var lausn Þórs sem var án miðherjans Snorra Hrafnkelssonar sem er veikur auk þess sem Bandaríkjamaðurinn Jesse Pellot-Rosa meiddist illa snemma á tímabilinu og er farinn til síns heima.

„Við þurftum að færa til í liðinu en við erum ógnandi alls staðar. Mér finnst við samt geta bætt okkur. Mér fannst við eiga góð færi sem duttu ekki. Mér líður hins vegar ekki illa ef vandamálið er að við setjum ekki opin skot. Ég veit það það kemur því strákarnir hafa unnið vel á æfingum.“

Þór var einnig í kvöld án Þorsteins Ragnarssonar. „Hann hefur í gegnum tíðina verið óheppinn þótt hann hafi verið heill í vetur. Hann fékk olnbogaskot í bringuna í leiknum á Sauðárkróki um daginn. Hann reyndi að spila gegn Val en var í vandræðum með að anda. Hann fór í hjartagáttina í fyrradag þar sem kom í ljós mar á lunga og bólgur í líffærunum í kringum hjartað þannig að hann hefur tekið dágott högg. Eins og staðan er í dag þarf hann að hvíla í tvær vikur þannig það er líklegt að hann mæti bara ferskur á nýju ári.“

En mikilvægast í kvöld voru hins vegar stigin tvö. Eftir erfitt haust er Þór búið að vinna síðustu tvo leiki og er ekki í fallsæti eftir kvöldið. „Við spilum núna við liðin í kringum okkur. Það var mikilvægt að vinna Val og fylgja því eftir með góðum sigri í kvöld á erfiðum útivelli. Mér fannst Höttur spila vel, Viðar Örn hefur fengið einhverja töfradrykki frá Inga Þór (þjálfara Snæfells) fyrir þriggja stiga skotin. Höttur var, líkt og Snæfell, með um 50% nýtingu þar og sum skotin hér voru fjandi erfið. Á sama tíma nýttum við ekki góð færi en það kom í seinni hálfleik og DJ og Emil stigu vel upp.“

Emil Karel: Dettur ofan í á endaum

Emil Karel Einarsson átti skínandi leik í liði Þórs í kvöld, skoraði 23 stig þar af fjórar þriggja stiga körfur. „Ég hef ekki verið sáttur við skotin mín í síðustu leikjum og vildi laga það. Maður verður bara að halda áfram að skjóta og þá dettur þetta ofan í á endanum,“ sagði hann eftir leik.

Níu stigum munaði á liðunum í lokin en aðeins einu stigi fyrir þriðja leikhluta. Þar spilaði Þór virkilega góða vörn. „Við spiluðum fína vörn allan leikinn. Þeir tóku áhlaup í lok þriðja leikhluta og skoruðu þrjár þriggja stiga körfu sem komu okkur í opna skjöldu en við náðum að halda ró okkar og koma með þetta.“

Sigurinn þýðir að Þór er loksins kominn upp úr fallsæti. „Það er mjög mikilvægt að klára svona leiki. Það eru alltaf hörkuleikir á Egilsstöðum en ég er mjög ánægður með okkar leik.“

Viðar Örn Hafsteinsson.vísir/anton
Viðar Örn: Þórsarar hittu úr stóru skotunum

Bandaríkjamaðurinn DJ Balentine var það sem skyldi að lið Þórs og Hattar í kvöld en Balentine skoraði 34 stig, þar af 21 úr þriggja stiga skotum. Þrátt fyrir ósigurinn sá Viðar ýmislegt jákvætt í leik síns liðs.

„Þórs liðið stóð sig vel. DJ var okkur erfiður í seinni hálfleik og hitti úr stóum skotum. Mér finnst varnarleikur okkar heilt yfir betri en hann hefur verið en Þórsarar, einkum Balentine, hittu úr stórum skotum þótt við værum í þeim.

Mér fannst við agaðri í sóknarleiknum og fá betri skot en við höfum fengið. Við erum að ströggla en mér fannst við samt taka skref í rétta átt. Við þurftum að fara inn í teiginn, mér fannst Þórsararnir veikir fyrir þar núna. Inn á milli látum við þá hins vegar þrýsta okkur út.

Við töpum of mörgum boltum áður en við komum sókninni í gang og við verðum að laga það. Við erum að gera barnaleg mistök og verðum að ná að hreinsa á okkur hausinn.“

Hattarmönnum gekk samt ágætlega fyrir utan þriggja stiga línuna og voru með 45% nýtingu þaðan. Einar Árni, þjálfari Þórs, velti því upp hvort Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, hefði sent Viðari töfradrykki en þeir þekkjast vel eftir að hafa þjálfað saman yngri landslið Íslands. Viðar neitaði því.

„Eina mixtúran sem hann drekkur er Kóka-kóla og það sendir hann ekkert frá sér, hann sér um það allt sjálfur. Takturinn er hins vegar betri í sókninni hjá okkur og við fáum betri skot.“

Höttur er hins vegar enn í neðsta sætinu, án sigurs eftir níu leiki og fær Íslandsmeistara KR í heimsókn næsta fimmtudagskvöld. „Við þurfum að halda áfram að gera betur og betur í hverjum leik og á hverri æfingu. Við höfum séð það með fleiri lið í botnbarátu að þegar fyrsti sigurinn kemur og sjálfstraustið eykst detta fleiri á eftir. Mér finnst við vera að gera betur og betur og við verðum að halda áfram á þeirri braut.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira