Innlent

Mest aukning á þriðjudögum

Baldur Guðmundsson skrifar
Umferðin um Hringveginn hefur, það sem af er árinu, verið 10 prósentum meiri en á sama tímabili í fyrra. Myndin er úr safni.
Umferðin um Hringveginn hefur, það sem af er árinu, verið 10 prósentum meiri en á sama tímabili í fyrra. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm
Umferðin um Hringveginn hefur, það sem af er árinu, verið 10 prósentum meiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin milli ára í nóvember er 7,2 prósent. Þetta kemur fram í samantekt á vef Vegagerðarinnar.

Vegagerðin mælir umferð á 16 stöðum á Hringveginum. Mest jókst umferðin á Suðurlandi og þar mest um teljara á Mýrdalssandi, hvar aukningin í nóvembermánuði nam 30 prósentum á milli ára. „Útlit er fyrir að umferðin aukist um meira en 10 prósent í ár, sem yrði næstmesta aukningin að minnsta kosti síðan 2005,“ segir á vefnum.

Athygli er vakin á því að umferðin í nóvember, miðað við í nóvember í fyrra, jókst um sjö prósent þrátt fyrir mikla ófærð, en eina vikuna í nóvember var ekkert ferðaveður á löngum köflum á stórum hluta landsins. Aukningin á Austurlandi nam enda aðeins 2,8 prósentum á milli ára en Austurland varð sennilega verst fyrir barðinu á óveðrinu. Umferðin um Suðurland jókst á sama tíma um tæp 11 prósent. Umferðin hefur hlutfallslega aukist mest á þriðjudögum, um 12,1 prósent, en minnst á sunnudögum, um 8,6 prósent. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×