Skoðun

Á hlíðarlínunni

Ellert B. Schram skrifar
Ný ríkisstjórn hefur verið skipuð. Við óskum henni góðs gengis, þótt stjórnarsáttmálinn varðandi málefni eldri borgara sé rýr, miðað við kosningaloforðin. Jú, frítekjumarkinu er breytt, fólk getur aflað sér viðbótartekna upp í 100 þúsund krónur mánaðarlega, án þess að sú upphæð sé dregin frá greiðslum frá almannatryggingum. Ég leyfi mér að fullyrða að sú breyting náðist fram fyrir baráttu og málflutning samtaka eldri borgara landsins. Það er spor í rétta átt og svo er tekið fram í stjórnarsáttmálanum að „kerfið“ verði endurskoðað. Gott og vel, vonandi tekur það ekki tíu ár (eins og síðast) að leggja fram breytingar á mannréttindum og lífskjörum þeirra, sem sitja við „bætur“, sem eru (vel) illa undir framfærslumörkum.

Staðreyndin er sú, að enn er langt í land hvað elstu borgarana varðar. Málflutningi og kröfum eldri borgara um margvíslegar leiðréttingar hefur því miður ekki verið sinnt sem skyldi. Jú, ýjað er að því að leggja eigi meiri peninga í hjúkrunarrými í þágu eldri borgara til að efla þjónustu og bæta lífsskilyrði aldraðra. Veita afslátt, lækka verð á meðölum, hjúkrun og almennri þjónustu. Vonandi er þetta ekki sýnd veiði en ekki gefin, eins og svo oft áður.

Við megum ekki gleyma þeirri staðreynd að meðalaldur hækkar, fleiri og fleiri eldast og spár um hækkandi aldur komandi kynslóða blasa við. Með öðrum orðum, við erum ekki einvörðungu að tala um gamla fólkið í dag, heldur líka á morgun og á komandi árum. Það er skylda stjórnmálanna og ríkisvaldsins að hlynna að fólkinu, sem náð hefur og nær háum aldri. Núlifandi og komandi kynslóðum. Þetta viðfangsefni snýst ekki eingöngu um mína jafnaldra, heldur framtíðina að auki.

Ég óska nýrri ríkisstjórn farsældar og skora á fulltrúa hennar, að hlusta á og virða af alvöru, samtök, talsmenn og aldraða sjálfa, þegar kemur að þjónustu og lífskjörum eldri borgara. Þeir eiga það skilið, þeir eiga það inni. Við sitjum að vísu á hliðarlínunni, en við eigum málstað og réttlæti, sem á erindi við þá sem ráða. Tökum nú höndum saman, þið á vellinum, við á hliðarlínunni.

 

Höfundur er formaður Félags eldri borgara í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×