Innlent

S. Björn Blöndal sækist ekki eftir endurkjöri

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
S. Björn Blöndal segir skilið við borgarstjórn í bili.
S. Björn Blöndal segir skilið við borgarstjórn í bili. Vísir/Hari
S. Björn Blöndal formaður Borgarráðs og borgarfulltrúi Bjartrar framtíðar, mun ekki sækjast eftir endurkjöri í sveitarstjórnarkosningunum í vor. Hann tilkynnti þetta í ræðu sinni á fundi borgarstjórnar í dag í umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.

„Þetta er síðasta fjárhagsáætlunin sem ég kem að í bili vegna þess að ég hyggst ekki gefa kost á mér til áframhaldandi setu í borgarstjórn á næsta kjörtimabili. Ég er ekki að lofa því að ég sé farinn að eilífu vegna þess að kannski kem ég aftur einhvern tíman ef að þið sem eftir sitjið ætlið að fara að klúðra einhverju þá verð ég að segja eins og Arnold Schwarzenegger I‘ll be back,“ sagði Björn í ræðu sinni.

„En að því gefnu að þið standið ykkur þokkalega og gerið hlutina á skynsamlegan hátt og eins vel og þið getið þá er ég alveg tilbúinn að mæta ekki aftur í þennan sal nema sem áhorfandi að þessu kjörtímabili loknu.“

Það er því ljóst að töluverð nýliðun verður í röðum borgarfulltrúa í vor. Áður hafa Halldór Auðar Svansson borgarfulltrúi Pírata og Halldór Halldórsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tilkynnt að þeir sækist ekki eftir endurkjöri.

Í ofanálag verður borgarfulltrúum fjölgað í vor úr 15 upp í 23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×