Innlent

Ráðherranefnd um jafnréttismál starfrækt að nýju

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórnarráðshúsið þar sem forsætisráðuneytið er til húsa.
Stjórnarráðshúsið þar sem forsætisráðuneytið er til húsa. Fréttablaðið/Vilhelm
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að starfrækja fjórar ráðherranefndir, meðal annars ráðherranefnd um jafnréttismál sem ekki hefur verið starfrækt á síðustu árum. Hinar nefndirnar eru ráðherranefnd um ríkisfjármál, ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins og loks ráðherranefnd um samræmingu mála er varða fleiri en eitt ráðuneyti.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu er nánar greint frá eðli hverrar nefndar fyrir sig.

Ráðherranefnd um ríkisfjármál

Hlutverk ráðherranefndar um ríkisfjármál er að skipuleggja vinnubrögð á sviði ríkisfjármála á vettvangi ríkisstjórnarinnar og vinnubrögð gagnvart ráðuneytum og Alþingi, svo sem um stefnumótun í opinberum fjármálum, undirbúningi fjárlagagerðar, eftirlit með framkvæmd fjárlaga og langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra eiga fast sæti í nefndinni.

Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins

Hlutverk ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins er að samræma stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hafa eftirlit með framkvæmd efnahagsstefnunnar á einstökum sviðum. Meðal þeirra verkefna sem nefndin fjallar um er framtíðarskipulag peningamála og samræming í fjármálum hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Nefndin er auk þess stefnumótandi og í forystu varðandi samskipti við aðila vinnumarkaðarins, uppbyggingu fjármálakerfisins og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi með tilliti til efnahagsmála. Þá er henni jafnframt ætlað að vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins í samræmi við þá áherslu í sáttmála ríkisstjórnar að breið sátt náist um endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi. Forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra eiga fast sæti í nefndinni.

Ráðherranefnd um samræmingu mála er varða fleiri en eitt ráðuneyti

Hlutverk ráðherranefndar um samræmingu mála er að samhæfa stefnu og aðgerðir í málum þar sem málefnasvið og ábyrgð ráðherra skarast og tryggja vandaðan undirbúning mála og upplýsingaflæði á milli ráðherra. Nefndinni er auk þess ætlað að fylgja eftir innleiðingu verkefna í stjórnarsáttmála með markvissum hætti. Forsætisráðherra á fast sæti í nefndinni en aðrir ráðherrar munu sitja fundina í samræmi efni mála sem til umfjöllunar eru hverju sinni.

Ráðherranefnd um jafnréttismál

Hlutverk ráðherranefndar um jafnréttismál verður að samhæfa störf ráðherra og ríkisstjórna á sviði jafnréttismála, s.s. vegna lengingar fæðingarorlofs og hækkunar orlofsgreiðslna í fæðingarorlofi, baráttu gegn kynbundnum launamun og að sambærileg störf séu metin með sambærilegum hætti og að Ísland verði í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks. Nefndinni er jafnframt ætlað að fjalla um aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota og lagaumhverfi kynferðisbrota, með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda kynferðisbrota, og um undirbúning Istanbúl-samningsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.

Forsætisráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra eiga fast sæti í nefndinni.

Aðrir ráðherrar sitja fundi ráðherranefnda eftir þörfum, samkvæmt ákvörðun forsætisráðherra sem stýrir fundum nefndanna í samræmi við reglur um starfshætti ráðherranefnda nr. 166/2013,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×