Innlent

Rannsókn langt á veg komin

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Ekki liggur fyrir hvernær rannsókn málsins lýkur.
Ekki liggur fyrir hvernær rannsókn málsins lýkur. vísir/vilhelm
„Rannsókninni er ekki enn lokið en hún er langt komin,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari um rannsókn embættisins á meintum brotum yfirmanns hjá Icelandair á lögum um verðbréfaviðskipti.

Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í júlí síðastliðnum og síðan var greint frá því að yfirmaðurinn hefði verið í slagtogi við að minnsta kosti þrjá aðra menn, sem einnig eru grunaðir.

Mennirnir eru grunaðir um að hafa nýtt sér í nokkur skipti innherjaupplýsingar sem þeir fengu hjá yfirmanni hjá Icelandair til að gera framvirka samninga með hlutabréf í Icelandair Group, aðeins fáeinum dögum áður en félagið sendi frá sér kolsvarta afkomutilkynningu til Kauphallarinnar í febrúar.

Icelandair sendi yfirmanninn strax í leyfi frá störfum þegar félagið fékk upplýsingar um að viðkomandi væri til rannsóknar. Héraðssaksóknari hefur kyrrsett tugi milljóna króna í tengslum við rannsókn málsins sem eru ætlaður hagnaður mannanna af viðskiptunum.

Ólafur Þór segir ekki liggja fyrir hvenær rannsókn málsins ljúki. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×