Innlent

Sigurður Ingi segir umferðarsektir of lágar til að hafa forvarnargildi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sigurður Ingi við lyklasiptin í samgönguráðuneytinu síðustu viku.
Sigurður Ingi við lyklasiptin í samgönguráðuneytinu síðustu viku. Vísir/Eyþór
„Núverandi sektarleiðir eru einfaldlega of lágar og slysatíðnin hefur farið vaxandi og það er mikilvægt að stjórnvöld leiti allra leiða til að bregðast við og fækka slysum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins í samtali við Reykjavík síðdegis í dag.

Að hans mati þarf með öllum tiltækum ráðum að fyrirbyggja slys í umferðinni, annars vegar með hækkun umferðarsekta og hins vegar með því að hraða nýbyggingu og viðhaldi í vegamálum. Skoðar hann núna breytingar á reglugerð sem væru þá hluti af því.

„Hérna í ráðuneytinu og Vegagerðinni þá vinna menn að því að vinna gegn slysum á allan mögulegan hátt. Annars vegar með allskonar framkvæmdum og við erum að leggja áherslu á þetta í samgönguáætlunum og þeim verkefnum sem við erum að fara af stað með, jafnvel verkefnum sem við erum að horfa núna á að fjármagna við nýja fjárlagagerð. Það er einn þátturinn. Önnur leið er sú að hækka sektir vegna þess að þær eru sannarlega orðnar lágar og margir sem benda á að þær hafi lítið forvarnargildi.“

Lægsta hraðasektin 20.000 krónur

Sigurður Ingi segir að það hafi komið nokkrar umsagnir um tillögu sem birt á vef ráðuneytisins núna í sumar, þar á meðal varðandi sektarreglugerð. Þar hafi einhverjir bent á að hækkun sektanna væri of há miðað við verðlag.

„Menn hafa verið að skoða þetta og ég ætla að gefa mér allavega nokkra daga í það,“ sagði Sigurður Ingi en hann tók við embætti samgönguráðherra á föstudag.  „Ég held að þetta sé eitt að því sem við þurfum að gera til að draga úr slysatíðninni, senda skilaboð að menn eigi bara að keyra á réttum hraða og virða almennar reglur.“

Sagði hann að tillögurnar sem ríkissaksóknari gerði og sendi samgönguráðuneytinu hafi verið „að hækka allar sektir, þannig þó að lægsta mögulega sektin væri 20.000.“ Sekt fyrir að keyra án ökuskírteinis væri þó 10.000 krónur. Með þessu væru margar sektir að hækka úr 5.000 upp í 20.000 krónur. „Hámarkssektarfjárhæðin gæti numið á hálfri milljón í stað 300.000, en þá þarf reyndar að fara í breytingar á umferðarlögum til að ná því fram og almennum hegningarlögum.“

„Förum varlega“

Í síðustu viku minntist Sigurður Ingi foreldra sinna sem fórust í umferðarslysi. Í einlægum pistli á Facebook rifjaði hann upp erfiðasta símtal ævi sinnar, þegar honum var tilkynnt að foreldrar hans hefðu látist í bílsslysi í Svínahrauni.

„Veröldin varð dökk, lífið umsnérist í einni hendingu. Lán okkar systkina var kærleikur og umhyggja fjölskyldu, vina og samfélagsins þar sem við ólumst upp. Án alls þess stuðnings sem allt þetta fólk veitti okkur hefði verið erfitt að komast í gegnum sorgina og alls þess sem beið okkar. Fyrir það verður aldrei fullþakkað.“

Pistilinn tengdi Sigurður Ingi við frétt Samgöngustofu um að rúmlega 1500 einstaklingar hefðu látist í umferðarslysum á síðustu hundrað árum. „Veturinn og myrkrið er oft hættulegasti tíminn. Förum því varlega kæru vinir og pössum hvert annað.“

Viðtalið má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að neðan: 






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×