Innlent

Leo og fjölskylda eru í felum í Þýskalandi: „Þau eru bara bókstaflega á flótta“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sema Erla Serdar var byrjuð að berjast fyrir Leo og fjölskyldu hans áður en ákveðið var að vísa þeim úr landi.
Sema Erla Serdar var byrjuð að berjast fyrir Leo og fjölskyldu hans áður en ákveðið var að vísa þeim úr landi. Vísir/Eyþór
Ófrískri konu var vísað úr landi í síðustu viku ásamt eiginmanni og 18 mánaða syni.  Farþegar í fluginu sem þau voru flutt í frá Keflavík til Frankfurt segja að meðferðin á flóttafjölskyldunni hafi ekki verið í lagi. Síðan þau komu til Þýskalands hafa þau verið í felum og óttast að vera líka vísað frá Þýskalandi.

„Þegar þau komu til Þýskalands voru þau í haldi lögreglunnar á flugvellinum í þónokkurn tíma. Síðan eru þau flutt frá flugvellinum í Frankfurt yfir í bæ þar sem eru stórar flóttamannabúðir. Eftir samtöl við yfirvöld og aðra er útlit fyrir að það eigi að brottvísa þeim frá Þýskalandi. Svo þau ná að stinga af frá yfirvöldum og eru núna í felum,“ segir Sema Erla Serdar, formaður Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi í samtali við Vísi.

Í mjög viðkvæmri stöðu

Hún hefur verið í einhverju sambandi, þó takmörkuðu, við fjölskylduna og hefur beðið þau að gefa sér frekari upplýsingar um flutninginn frá Íslandi og einnig að fá pappíra sem staðfesti að þeim verði vísað frá Þýskalandi. Sema Erla telur að brottvísun og flutningur fjölskyldunnar í síðustu viku hafi verið ómannúðlegur og hugsanlega hafi Ísland brotið gegn alþjóðalögum.

„Ef að það á að brottvísa þeim frá Þýskalandi þá hefur Ísland brotið gegn nokkrum greinum í Dyflinarreglugerðinni. Í málsmeðferð þeirra hér vildu íslensk yfirvöld ganga úr skugga um að þau yrðu ekki áframsend frá Þýskalandi.“ Sema Erla segir að svar hafi ekki borist frá Þýskalandi innan þess tímaramma sem var gefinn fyrir svari um að það yrði tekið við þeim. Því hafi verið tekið sem samþykki.

„Þetta er bara mjög alvarlegt mál, þessi fjölskylda er í svo viðkvæmri stöðu af svo mörgum ástæðum. Svo eru þau með eins og hálfs árs gamalt barn og hún ólétt. Það er náttúrulega ekki boðlegt að yfirvöld séu að senda fólk í þessari stöðu á flótta aftur, þau eru bara bókstaflega á flótta“

Konan, Sobo Anwar Hasan er 24 ára gömul og frá Íran en Nasr Mohammed Rahim eiginmaður hennar er 26 ára og frá Írak. Þau voru ofsótt af fjölskyldumeðlimum sem voru ósátt við hjónaband þeirra svo þau flúðu til Íraks. Þar reyndu hryðjuverkamenn að fá Nasr til liðs við sig svo þau flúðu til Evrópu. Fyrst sóttu þau um hæli í Þýskalandi þar sem þau fengu neitun og komu þau svo til Íslands.

Í handjárnum allt flugið

Konan barnshafandi og með óútskýrðar blæðingar og verki. Farþegi í flugi Icelandair til Frankfurt á fimmtudag sagði í samtali við Vísi að fjölskyldan hafi verið í mikilli geðshræringu á leiðinni og þungbært hafi verið fyrir aðra farþega að fylgjast með þeim. „Hún bara emjaði allan tímann,“ sagði farþegi um líðan Sobo á leiðinni.  

Sema Erla birti færslu á Facebook þar sem hún óskaði eftir því að komast í samband við aðra farþega í fluginu og höfðu margir samband við hana í kjölfarið. Flestir höfðu sömu sögu að segja en flóttafjölskyldan var komin um borð ásamt lögreglumönnunum sem fylgdu þeim úr landi, áður en öðrum farþegum var hleypt um borð í vélina.

„Þau sátu þarna aftast, Leo í fangi föður síns með fylgdarlögreglumenn sitthvoru megin og svo hinum megin hafði Sobo setið, líka með einhvern hjá sér. Mér skilst að það hafi verið fimm sem fylgdu þeim úr landi. Hún er í rauninni í handjárnum alla ferðina, þegar fólk fer að koma sér fyrir er eins og hún sé nú þegar í handjárnum.“

Fengu engan fyrirvara

Sema Erla segir að flestir þeir farþegar sem hún hafi talað við hafi verið reiðir og ósáttir með þetta. Hún segir að Sobo hafi brotnað niður þegar farþegarnir komu um borð og grátið mikinn hluta af leiðinni. Farþegar sögðu líka frá því að Leo litli hafi grátið mikið í flugvélinni.

„Við áttum svosem alveg von á því, við vissum alveg að þetta yrði erfitt, sérstaklega vegna þess hvernig var staðið að þessu alveg frá upphafi.“

Þann 29. nóvember síðastliðinn kom lögregla á heimili fjölskyldunnar án fyrirvara og tilkynnti að þeim yrði vísað úr landi. Var þeim skipað að pakka niður og fjarlægði lögreglan svo fjölskylduna af heimilinu. Fjölskyldunni var svo vísað úr landi degi síðar.

„Það var allt reynt til að koma í veg fyrir að þau færu um borð í þessa vél,“ útskýrir Sema Erla sem er mjög hissa á því hvernig var staðið að þessu máli. Segir hún meðferð málsins hér á landi hafa verið fáránlega og því hafi hún unnið að endurupptöku.

Á að hafa mannúð að leiðarljósi

„Ég reyndi eftir helgina að hafa samband við flugfélagið og stoðdeild lögreglunnar til þess að fá svör um það hvernig stæði á þessari meðferð á fólkinu og það eru bara engin svör. Manni er bara vísað fram og til baka og hringja seinna og að enginn viti neitt. Þetta er náttúrulega bara hrikalegt og rímar ekki við þær verklagsreglur sem Útlendingastofnun og stoðdeild lögreglunnar og aðrir setja sér í þessum málum. Sem að til dæmis kveða á um að hafa mannúð að leiðarljósi og sýna fólki virðingu.“

Hún segir að venjulega liggi brottvísunardagur fyrir með nokkurra daga fyrirvara en það hafi ekki verið þannig í þetta skiptið, fjöldskyldan hafi ekki einu sinni náð að kveðja neinn á Íslandi áður en þau fóru. Unnið var að endurupptöku að máli fjölskyldunnar og höfðu Solaris hjálparsamtökin safnað meira en 5.000 undirskriftum til þess að þrýsta yfirvöld og að málið yrði endurskoðað.

„Þetta er svo útskýrt verklag hjá þeim svo maður veltir fyrir sér hvort þetta hafi verið leið yfirvalda til þess að losa sig við þau áður en að kæmu upp sambærilegar aðstæður og hafa verið. Við erum bara ítrekað að sjá að það er verið að brjóta á réttindum barna. Það er engin mannúð í meðferð á fólki á flótta og þessu þarf að breyta.“

Gefa sig fram á endanum

„Nú erum við að skoða hvað við getum gert til þess að veita þessu fólki vernd, að þau fái skjól en ekki send til baka í stórhættu,“ segir Sema Erla.

Hún telur raunverulega hættu á því að þeim verði send beint til Írans eða Írak, þar sem þau óttast mjög um líf sitt. Hún er frá Íran, hann er frá Írak og Leo ríkisfangslaus svo það er hætta að fjölskyldunni verði splittað upp.

„Maður veit ekkert hvert á að senda þau eða hvað verður um þau.“

Sema segir íslensk stjórnvöld ekki mega senda þau aftur til þess ríkis þar sem þau óttast um líf sitt. Ef það fer svo að Þýskaland sendir þau aftur til Írans eða Írak þá séu íslensk stjórnvöld samsek í því að brjóta gegn alþjóðalögum. Munu samtökin aðstoða fjölskylduna að leita réttar síns ef brotið hefur verið á þeim. Fjölskyldan getur þó ekki verið lengi í felum.

„Þau verða að gefa sig fram fyrr eða síðar, en þau eru náttúrulega hrædd við afleiðingarnar af því. En nei þau verða það eflaust ekki lengi. Þetta er mjög erfitt og þetta er harmsaga, það er alveg hrikalegt að heyra frá þeim um líðan þeirra.“


Tengdar fréttir

„Þetta er svo grimmt“

Sema segir lögreglu hafa fjarlægt fjölskyldu af heimili sínu með skömmum fyrirvara fyrr í dag sem á að vísa úr landi á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×